Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 21. júlí 2021 11:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Þetta var bara dæmi sem gekk alls ekki upp"
Landsliðsmiðvörðurinn er kominn heim í Fylki.
Landsliðsmiðvörðurinn er kominn heim í Fylki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á æfingu í snjókomunni í Armeníu.
Á æfingu í snjókomunni í Armeníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var að gera það erfitt fyrir mig að einbeita mér að fótboltanum og ég var ekki að standa mig eins og ég vildi.
Það var að gera það erfitt fyrir mig að einbeita mér að fótboltanum og ég var ekki að standa mig eins og ég vildi.
Mynd: Getty Images
Á landsliðsæfingu í mars.
Á landsliðsæfingu í mars.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar Sigurðsson er genginn í raðir uppeldisfélagsins Fylkis og var það tilkynnt í gær. Landsliðsmiðvörðurinn hefur spilað erlendis frá árinu 2006 og á að baki 97 landsleiki.

Fótbolti.net heyrði í Ragnari í gær og spurði hann út í heimkomuna.

Fyrri hluti:
Segir áhugann hafa verið lítinn: Vildi ekki loka á landsliðið

Ragnar lék síðast með Rukh Lviv í Úkraínu. Fréttaflutningur í vetur var á þann veg að Ragnar hefði rift samningi sínum við félagið en það hefur ekki verið mjög skýrt hvers vegna.

Raggi var spurður út í það hvers vegna hann fór frá FCK og gekk í raðir Rukh og hvernig sá tími hefði verið.

„FCK fór í svakalega umbyltingu. Það fyrsta sem gerðist, svolítið áður en Ståle Solbakken var látinn fara, var að fitness þjálfarinn var rekinn. Hann var ein stærsta ástæðan fyrir því að ég vildi vera í FCK, ásamt borginni og stuðningsmönnunum," sagði Raggi.

„Hann er frábær gæi, bjó til stemningu og var með skemmtilegar æfingar. Hann var svolítið að stjórna æfingunum og eftir að hafa verið í Rússlandi, þar sem ég var kominn með svolitla leið á fótbolta, vildi ég koma í umhverfi þar sem ég vissi að mér myndi finnast gaman. Hann var rekinn eftir að ég kom og það var svolítið „slap in the face” fyrir mig. Sá sem kom inn fyrir hann var reyndar mjög fínn en hinn var ein stærsta ástæðan fyrir því að ég vildi koma til baka í FCK.”

„Síðan reynir maður að halda áfram, covid kom og ég og konan vorum aðskilin á meðan hún var ólétt. Það var rosalega erfiður tími fyrir mig, ég gat ekki verið með henni og hún var ein kasólétt í Rússlandi. Það var að gera það erfitt fyrir mig að einbeita mér að fótboltanum og ég var ekki að standa mig eins og ég vildi.”


Best fyrir Ragga og FCK ef hann færi annað
„Svo var Ståle rekinn og það kemur inn nýr þjálfari. Það var augljóst strax að hann ætlaði að gera miklar breytingar og maður sá það strax á byrjunarliðsvalinu að hann vildi helst hafa Dani í liðinu."

„Ég sá það strax að ég var ekki í myndinni hjá honum og ég talaði við hann, spurði hann hvernig hann væri að sjá hlutina. Hann var hreinn og beinn með það að ég ætti ekki mikinn séns hérna og það væri best fyrir mig og fyrir FCK ef ég myndi fara. Ég kunni mjög vel að meta hreinskilnina. Ég sagði bara allt í lagi þó svo að ég vildi vera áfram. Ég er ekki að fara hanga á einhverjum stað þar sem maður á engan séns, þá finnst mér ekki mikill tilgangur með þessu.”

„Ég fór þá að kíkja eitthvað í kringum mig en það var erfitt að finna eitthvað gott út af því að ég var búinn að spila svo lítið. Ég ætlaði að fara til félags í Tyrklandi en svo kom upp sú regla að maður mátti ekki fljúga frá Danmörku til Tyrklands út af covid. Danmörk var rautt land, ég hefði þurft að fljúga heim til Íslands, vera þar í sóttkví og fara svo til Tyrklands. Ég var ekki að nenna því.”


Dæmi sem gekk alls ekki upp
„Þá hafði þjálfarinn í Úkraínu samband, hann var aðstoðarþjálfari Krasnodar þegar ég var þar. Við vorum ágætis félagar þar og mér fannst hann góður maður. Hann vildi endilega að ég myndi koma af því að þeir voru með lélegt lið í úkraínsku úrvalsdeildinni, vildi að ég myndi koma til að hjálpa þeim að halda sér uppi. Mér leist bara ágætlega á það því ég þekkti hann og ég vissi að ég væri ekki að fara út í einhverja algjöra vitleysu, stundum veit maður ekki alveg út í hvað maður er að fara.”

„Svo héldu þessu kálfameiðsli áfram, ég náði ekkert að koma mér af stað og í form. Eftir að ég meiðist svo í upphitun fyrir landsleikinn gegn Armeníu sagði ég við þjálfarann að ég nennti ekki að koma til baka, ég þyrfti einhverjar tvær, þrjár vikur að jafna mig á meiðslunum og svo koma mér í stand. Þá hefðu bara verið einhverjir tveir leikir eftir af deildinni. Ég bað hann bara um að hjálpa mér að rifta þessum samningi því ég nennti ekki að fara til baka.”

„Það var ekkert að þessari borg eða strákunum í liðinu eða neitt þannig. Það voru allir þarna mjög fínir og allir að gera sitt besta. Þetta var bara dæmi sem gekk alls ekkert upp."


Spilaði einn leik í Úkraínu - Meiddist í upphitun
Umræðan um að þú værir búinn að rifta byrjaði í kringum þetta landsleikjahlé í mars. Varstu heill þegar þú komst til móts við landsliðið?

„Ég var búinn að vera meiddur en næ mér heilum fyrir landsleikina. Ég byrjaði inn á í fyrsta deildarleiknum mínum og var ekkert í besta standinu. Þjálfarinn tekur mig út af í hálfleik sem mér fannst skrítin ákvörðun þar sem það var enginn að spila vel. Hann tók þrjá menn út af, mig og tvo aðra.”

„Ég kom svo til móts við landsliðið og fann að það var mikill kraftur í mér og það gekk vel á æfingunum. Landsliðsþjálfararnir treystu mér kannski ekki alveg til að spila á móti Þýskalandi en sáu svo á æfingunum að ég var tilbúinn í þetta og búinn að vera mjög góður á æfingunum.”

„Ég átti að spila á móti Armeníu en á einhvern ótrúlegan hátt meiðist ég í kálfanum. Ég var að senda boltann á milli með Sverri. Þetta var ótrúlegt, ég var búinn að æfa mjög hart með liðinu en svo gerist þetta í einhverju svona litlu atviki, mjög skrítið,”
sagði Raggi að lokum.

Fyrri hluti:
Segir áhugann hafa verið lítinn: Vildi ekki loka á landsliðið
Athugasemdir
banner
banner