Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   þri 20. júlí 2021 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Raggi Sig segir áhugann hafa verið lítinn: Vildi ekki loka á landsliðið
97 landsleikja maður.
97 landsleikja maður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Fylki árið 2007.
Í leik með Fylki árið 2007.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Tilhugsunin að fara í Víking, vera þar með Sölva og Kára sem eru tveir af mínum bestu vinum, hún var svolítið skemmtileg.
Tilhugsunin að fara í Víking, vera þar með Sölva og Kára sem eru tveir af mínum bestu vinum, hún var svolítið skemmtileg.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert og Raggi eru bestu vinir.
Albert og Raggi eru bestu vinir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag var tilkynnt að landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson væri búinn að semja við Fylki. Raggi er uppalinn hjá félaginu en hefur leikið erlendis frá árinu 2006. Hann er 35 ára miðvörður sem á að baki 97 A-landsleiki.

Raggi skrifar undir samning við Fylki sem gildir út næsta tímabil. Hann var síðast á mála hjá Rukh Lviv í Úkraínu en lék einungis einn leik með félaginu.

Fótbolti.net heyrði í Ragnari í dag og spurði hann út í heimkomuna.

Vildu vera áfram í Kaupmannahöfn
Hvað kemur til að þú ert kominn í Fylki?

„Við konan erum búin að vera rosalega hamingjusöm í Kaupmannahöfn. Eins og staðan hefur verið á mínum ferli að undanförnu þá hefur ekki mikið verið í gangi, ég hef verið mikið meiddur og ekki spilað mikið. Þar af leiðandi hefur áhuginn á mér erlendis minnkað, þannig virkar þetta."

„Við vorum að tékka möguleikana og ég var búinn að fá tilboð héðan og þaðan en það var engan veginn þess virði að flytja héðan í eitthvað ókunnugt land eða ókunnuga borg til að spila fótbolta.”

„Við vorum aðallega að skoða möguleikana hérna í Kaupmannahöfn og sannleikurinn er sá að það var ekkert lið sem var að sýna mér neinn áhuga. Mér finnst ég ekki vera búinn í fótboltanum ennþá þó að síðustu tvö ár hafi verið erfið þegar kemur bæði að meiðslum og faraldrinum.”

„Ég heyrði í Fylkismönnum og sagði þeim að ég vildi koma til baka og það gekk nokkuð hratt fyrir sig að klára það mál.”


Gætiru séð þig fara aftur út?

„Það þyrfti að koma helvíti mikið til, bæði til þess að ég fengi það tilboð og að ég myndi nenna því.”

Æfði með Kórdrengjum og Víkingi - Vildi ekki loka á landsliðið
Þú æfðir með Víkingi og Kórdrengjum. Var Fylkir alltaf kostur númer eitt ef það væri niðurstaðan að fara til Íslands?

„Það var svolítið fram og til baka. Tilhugsunin að fara í Víking, vera þar með Sölva og Kára sem eru tveir af mínum bestu vinum, hún var svolítið skemmtileg. Að vera í því umhverfi, klefanum með þeim og spila saman.”

„Ég var á tímapunkti ekki viss hvort ég væri að spá áfram í landsliðinu og besti vinur minn, Albert Brynjar Ingason, er í Kórdrengjum, þess vegna skoðaði ég það. Fyrst að ferillinn er á niðurleið og hugurinn var svolítið kominn heim hugsaði ég að það væri gaman að vera með einhverjum góðum vini til að hafa svolítið gaman að þessu. Ég þekki Davíð Smára og mér finnst hann góður þjálfari og góður gaur, þannig það var ekki slæmur kostur fyrir mig.”

„Mér finnst ég ekki vera búinn sem leikmaður og ég held að ef ég sé vel um mig þá geti ég spilað í eitt, tvö, þrjú ár í viðbót. Ég ákvað að mig langaði ekki að loka á landsliðið. Mér fannst ég þurfa að fara í Pepsi ef það væri einhver séns að vera áfram í landsliðinu, með það í huga var ekki hægt að fara í 1. deildina.”

„Fylkir er minn uppeldisklúbbur og tilhugsunin að koma aftur þangað fannst mér æðisleg. Ég þekki fullt af fólki í klúbbnum þó ég þekki ekki marga af leikmönnunum. Það eru aðallega Ragnar Bragi og Helgi Valur sem koma upp í hugann."

„Þegar ég sá að þetta var að fara gerast þá var Fylkir það eina sem kom til greina. Ég talaði ekki við nein önnur lið.”


Fær ekki leikheimild fyrr en í ágúst
Hvernig er standið á þér núna? Sérðu fram á að geta spilað 90 mínútur í næsta leik?

„Ég kem ekki heim fyrr en í næstu viku og verð ekki í leikheimild fyrr en í ágúst ef ég skil umboðsmanninn rétt. Það er út af því ég fór til Úkraínu í eitthvað djók þar. Ef ég hefði ekki verið þar þá hefði ég getað komið heim og spilað strax.”

„Ég er ekkert búinn að vera æfa fótbolta í tvo eða þrjá mánuði þannig ég get ekki haldið því fram að ég sé í leikformi akkúrat núna. Ég er búinn að halda mér ágætlega við, búinn að vera hlaupa mikið í Köben og búinn að vera í ræktinni."

„Ég er ekki í besta formi lífsins akkúrat núna en það er mjög fljótt að koma. Ég hugsa að þegar ágúst gengur í garð þá ætti ég að vera orðinn nokkuð klár,”
sagði Ragnar í sínu fyrstu viðtali eftir að hann samdi við Fylki.

Nánar var rætt við hann og birtist seinni hluti viðtalsins á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner