Markvörðurinn ungi Elías Rafn Ólafsson hefur spilað alla leiki Aarhus Fremad í dönsku C-deildinni síðan hann kom til félagsins á láni frá Midtjylland í júlí. Elías, sem er 19 ára gamall, hefur hrifið Morten Mölkjær, þjálfara Aahus Fremad.
„Ég hef trú á því að hann verði A-landsliðsmarkvörður eftir fimm til sjö ár," sagði Morten en Elías er 201 cm á hæð.
„Hann hefur nokkra framúrskarandi hæfileika. Hann er með sterka líkamsbyggingu og hann er með góðar tímasetningar þegar hann hoppar og grípur inn í."
„Hann er óhræddur við að spila boltanum með höndum og fótum. Köstin hjá honum eru góð og hann er góður í að kasta yfir fyrstu pressu frá mótherjunum."
Elías var í yngri flokkum Breiaðbliks áður en hann fór til Midtjylland en hann vakti athygli með danska liðinu í Meistaradeild unglingaliða á síðasta tímabili. Fyrr á þessu ári spilaði hann sinn fyrsta leik með U21 árs landsliði Íslands.
Athugasemdir