Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 21. september 2021 21:27
Fótbolti.net
Einkunnir Íslands: Glódís heldur áfram að brillera í bláu
Icelandair
Glódís heldur áfram að brillera í bláu
Glódís heldur áfram að brillera í bláu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveindís var öflug í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik
Sveindís var öflug í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland tapaði 0-2 fyrir Hollandi í fyrsta leik liðsins í undankeppni HM. Það reyndi rækilega á varnarleik Íslands gegn einu skæðasta sóknarliði heims. Íslenska liðið mætti hugrakkt til leiks og gerði oft ágætlega en það dugði því miður ekki til gegn Evrópumeisturunum.

Sandra Sigurðardóttir – 6
Flottur leikur hjá Söndru. Var örugg í sínum aðgerðum en gat lítið gert í mörkum Hollendinga.

Guðný Árnadóttir - 6
Það var smá skjálfti í Guðnýju í byrjun leiks enda að leika í nýrri stöðu. Hún var gripin nokkrum sinnum út úr stöðu en gerði oft á tíðum mjög vel varnarlega með hraða sínum og styrkleika maður gegn manni.

Glódís Perla Viggósdóttir - 7
Leiðtoginn í öftustu línu. Gekk vel að hafa gætur á Vivienne Miedema, skærustu stjörnu Hollendinga. Heldur sínu striki og spilar frábærlega í bláa búningnum.

Ingibjörg Sigurðardóttir - 6
Svolítið óörugg á köflum. Gaf van der Gragt of mikið pláss í fyrra marki Hollands. Gerði vel á 75. mínútu þegar hún brást hratt við og kom í veg fyrir að Hollendingar fengju dauðafæri.

Hallbera Guðný Gísladóttir - 5
Það fór lítið fyrir henni sóknarlega. Varðist ágætlega. Dróg af henni í síðari hálfleik.

Alexandra Jóhannsdóttir - 5
Var vinnusöm á miðsvæðinu fyrir Ísland og gerði vel varnarlega. Lék í rúma klukkustund.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - 6
Drifkrafturinn í íslenska liðinu. Skilaði góðum hlaupatölum og frábæru hugarfari að vanda.

Dagný Brynjarsdóttir - 6
Dagný var kröftug og útsjónarsöm á miðsvæðinu. Sterk í loftinu, návígum og spilaði boltanum vel frá sér. Átti hættulega fyrirgjöf sem hefði verið hægt að vinna betur úr og átti svo ágæta skottilraun á lokamínútunum.

Agla María Albertsdóttir - 5
Það fór lítið fyrir Öglu Maríu í leiknum. Átti nokkrar rispur og tvö ágæt skotfæri. Var í meiri varnarvinnu en oft áður og það bitnaði á sóknarleiknum. Vinnslan til fyrirmyndar.

Sveindís Jane Jónsdóttir - 7
Var stórhættuleg í fyrri hálfleiknum. Átti marga góða spretti upp hægra megin og fór illa með vinstri bakvörð Hollendinga trekk í trekk. Hefði mögulega stundum mátt fara lengra með boltann sjálf en Hollendingum tókst að loka ágætlega á sendingar hennar inná teiginn. Fór minna fyrir henni í síðari hálfleik.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir - 5
Það fór lítið fyrir Berglindi í leiknum. Var oft einmana í fremstu línu og náði því miður ekki að tengja við fyrirgjafir Sveindísar í fyrri hálfleiknum.

Varamaður sem fær einkunn:

Svava Rós Guðmundsdóttir - 5
Lék í rúman hálftíma en náði ekki að setja mark sinn á leikinn.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir – 6
Náði að hafa áhrif á leikinn. Kom sér í gott skotfæri en setti boltann rétt framhjá. Hleypti lífi inná íslensku miðjuna og náði að koma svolitlu flæði á boltann þann hálftíma sem hún lék.

Aðrar spiluðu ekki nóg til að fá einkunn.
Athugasemdir
banner
banner
banner