Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, tilkynnti í liðinni viku að hann hefur ákveðið að láta af störfum. Þórir kom í heimsókn í útvarpsþátt Fótbolta.net á X-inu í gær.
„Það var seinni hluta síðasta árs sem ég fór að hugsa út í að skipta um starfsvettvang. Staðan er góð á allflestum vígstöðvum í hreyfingunni og þá held ég að það sé málið að hleypa nýju fólki að sem er með enn meiri ástríðu fyrir þessu starfi," segir Þórir.
„Ég sé ekki eftir einni einustu mínútu sem ég hef verið í þessu starfi. Þetta er mjög erilsamt og lifandi starf. Ég held að það sé bara ágætt að breyta til eftir átta ár í þessu starfi. Það þurfa endrum og sinnum að blása ferskir vindar."
„Ég lít þannig á að ég skili góðu búi og stíg stoltur frá borði. Árangur landsliða hefur verið góður og ég held að við höldum áfram því gengi. A-landslið karla er mikið í umræðunni og það mæðir mikið á þeim sem koma að því liði að koma okkur á EM. Ég hef fulla trú á því að við förum þangað," segir Þórir sem var spurður að því hvort hann vilji ekki vera framkvæmdastjóri þegar Ísland kemst á EM.
„Ég mun fara þangað. Ég fer þangað og fylgist með íslenska landsliðinu."
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan en Þórir vildi ekki gefa það upp í hvaða starf hann hyggst fara í.
Athugasemdir