Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 22. febrúar 2021 17:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Mikilvægt að vera góður liðsmaður" - Verður Arnór á miðjunni hjá Val?
Arnór Smárason.
Arnór Smárason.
Mynd: Fótbolti.net - Tom
Arnór í landsliðsverkefni í Katar.
Arnór í landsliðsverkefni í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
„Ég hef kynnst ólíkri menningu, ólíkum deildum og ólíkum tungumálum. Þetta fer allt í reynslubankann sem ég tek með mér hingað heim," segir Arnór Smárason, leikmaður Vals.

Hann var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 síðasta laugardag..

Arnór gekk í raðir Valsmanna í vetur en þessi 32 ára leikmaður hefur spilað erlendis í atvinnumennsku frá unga aldri. Hann er því að fara að spila sitt fyrsta tímabil í meistaraflokksbolta á Íslandi.

„Það hefur alltaf verið löngun hjá mér að koma heim á einhverjum tímapunkti. Þetta var fínn tímapunktur núna. Það var smá meiðslabras á mér hjá Lilleström í fyrra og samningurinn minn rann út. Þá ákvað ég að þetta væri rétti tíminn til að koma heim," segir Arnór.

„Ég talaði við nokkra klúbba en leist rosalega vel á þetta 'project' hjá Val. Ég var mjög fljótur að ákveða það að fara þangað og sé ekki eftir þvi. Mér finnst þetta vera meira 'professional' en ég bjóst við fyrst. Það hafa verið tvær æfingar á dag tvisvar í viku og mér finnst það hafa gengið mjög vel upp. Við erum að æfa mikið og vel."

Valsmenn hafa í vetur haft tvo daga í viku þar sem leikmenn eru á svæðinu allan daginn og æfa tvisvar á dag.

„Það er mikill metnaður, bæði á æfingum og hjá félaginu almennt. Það eru góðir einstaklingar í hópnum sem maður er fljótur að tengja við. Mér líður vel, ég er með sænska kærustu og 15 mánaða dóttur. Við höfum komið okkur vel fyrir í nýja hverfinu á Hlíðarenda og það er stutt á æfingar."

Leysi þær stöður sem ég er settur í
Arnór er fjölhæfur leikmaður sem er vanur því að spila í sóknarstöðunum. Hann kom hinsvegar inn sem miðjumaður í sigri Vals gegn Grindavík í Lengjubikarnum á föstudaginn.

„Ég kom inn í sexuna, sem djúpur á miðjunni. Það er hlutverk sem hentar ágætlega og ég veit að þeir (þjálfararnir) eru að pæla í. Annars get ég leyst flestar stöður framar á vellinum. Það er alveg líklegt að ég verði eitthvað aftarlega, það fer bara eftir því hvernig Heimir vill hafa þetta. Ég leysi bara þær stöður sem ég er settur í," segir Arnór.

Rosalega gaman að vera hluti af þessari heild
Arnór er hluti af gullkynslóð Íslands. Hann hefur leikið 26 landsleiki fyrir Ísland en margoft var hann valinn í hópinn án þess að fá að spila. Tækifærin komu helst í vináttulandsleikjum. Þrátt fyrir að hafa verið meðvitaður um að fá ólíklega að spila þá segir Arnór það hafa verið forréttindi að vera hluti af þessum hóp.

„Það gekk rosalega vel á þessum tíma og það fannst byrjunarlið sem virkaði. Það er enn að spila og gera vel. Þú ferð auðvitað með því hugarfari að vera að fara að spila en það er líka svo mikilvægt að vera hluti af góðri heild," segir Arnór.

„Þú veist kannski að þú ert ekki að fara að fá margar mínútur en maður verður að gíra sig í að gera þetta eins vel og maður getur. Vera góður liðsmaður og vera góður í hóp. Þetta helst allt í hendur."

„Auðvitað hefði maður viljað spila fleiri mínútur og fá tækifærið í einhverjum af þessum stærri leikjum. En það var líka rosalega gaman að vera hluti af þessari heild svona marga leiki. Ég lít frábærlega til baka á þennan tíma."
Arnór Smára spilar í fyrsta sinn í íslensku deildinni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner