Bruno Fernandes fyrirliði Manchester United leiddi endurkomu liðsins gegn Everton í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni, þar sem lokatölur urðu 2-2 eftir að Man Utd hafði lent tveimur mörkum undir í fyrri hálfleik.
Bruno reyndi að hvetja sína menn áfram fyrir framan myndavélarnar að leikslokum, hann segir að leikmenn verði að girða sig í brók til að ná betri úrslitum.
„Við fengum góð færi í seinni hálfleik en við byrjuðum alltof seint, við mættum varla til leiks í fyrri hálfleik. Við vorum ekki nógu hreyfanlegir, við verðum að byrja leiki betur. Það gengur ekki að byrja bara að spila fótbolta og taka áhættur eftir að maður lendir undir," sagði Bruno Fernandes og hélt áfram.
„Í leikhlé var stjórinn í uppnámi útaf því að við vorum ekki að halda okkur við leikskipulagið. Í seinni hálfleik spiluðum við eftir okkar hugmyndafræði og það var mun betra, strákarnir hreyfðu sig meira og við vorum frjálsari á vellinum."
Rauðu djöflarnir eru í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, aðeins með 30 stig eftir 26 umferðir. Þeir eru heppnir að vera ekki í fallbaráttu.
„Þetta er árangursmiðað félag þar sem allt snýst um að sigra fótboltaleiki. Við þurfum að gera miklu meira til að snúa þessu slæma gengi við. Allir leikmenn verða að spila betur, við verðum að gera meiri kröfur til hvors annars."
Athugasemdir