Fimm leikjum var að ljúka á sama tíma þar sem vængbrotið toppbaráttulið Arsenal tapaði heimaleik gegn West Ham United.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn þar sem afar lítið var um færi, en Jarrod Bowen tók forystuna á 44. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Aaron Wan-Bissaka. Varnarmenn Arsenal voru steinsofandi og vörðust ekki fyrirgjöfinni.
Arsenal átti áfram í miklu basli með að skapa sér færi gegn skipulögðum andstæðingum enda vantar fjórar af helstu stjörnum liðsins í sóknarlínuna.
Á 73. mínútu fékk Miles Lewis-Skelly beint rautt spjald fyrir að ræna upplögðu tækifæri með broti á miðjum vellinum. Tíu leikmenn Arsenal sóttu en þeim tókst ekki að skapa góð færi svo lokatölur urðu 0-1.
Arsenal klúðraði hér enn einu tækifæri til að brúa bilið á milli sín og toppliðs Liverpool, sem er núna með átta stiga forystu.
Matheus Cunha skoraði þá eina mark leiksins í dýrmætum sigri Wolves á gríðarlega erfiðum útivelli Bournemouth. Heimamenn í liði Bournemouth áttu lítið af svörum eftir að Illia Zabarnyi fékk beint rautt spjald fyrir grófa tæklingu á 31. mínútu.
Tottenham fór illa með Ipswich þar sem Brennan Johnson skoraði tvennu í fyrri hálfleik eftir stoðsendingar frá Son Heung-min. Staðan var 1-2 í leikhlé en Djed Spence og Dejan Kulusevski gerðu út um viðureignina með mörkum á lokakaflanum.
Tottenham er í tólfta sæti eftir sigurinn, tíu stigum frá Evrópu.
Crystal Palace er jafnt Tottenham á stigum eftir sigur á útivelli gegn Fulham á meðan Brighton er aðeins þremur stigum frá Evrópusæti eftir þægilegan sigur á útivelli gegn botnliði Southampton.
Arsenal 0 - 1 West Ham
0-1 Jarrod Bowen ('44 )
Rautt spjald: Myles Lewis-Skelly, Arsenal ('73)
Bournemouth 0 - 1 Wolves
0-1 Matheus Cunha ('36 )
Rautt spjald: Ilya Zabarnyi, Bournemouth ('31)
Fulham 0 - 2 Crystal Palace
0-1 Joachim Andersen ('37 , sjálfsmark)
0-2 Daniel Munoz ('66 )
Ipswich Town 1 - 4 Tottenham
0-1 Brennan Johnson ('18 )
0-2 Brennan Johnson ('26 )
1-2 Omari Hutchinson ('36 )
1-3 Djed Spence ('77 )
1-4 Dejan Kulusevski ('84 )
Southampton 0 - 4 Brighton
0-1 Joao Pedro ('23 )
0-2 Georginio Rutter ('57 )
0-3 Kaoru Mitoma ('71 )
0-4 Jack Hinshelwood ('82 )
Athugasemdir