Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 22. júlí 2022 21:28
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Þórsarar kláruðu Kórdrengi á lokamínútunum
Harley Willard skoraði úr tveimur vítaspyrnum
Harley Willard skoraði úr tveimur vítaspyrnum
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kórdrengir 2 - 4 Þór
0-1 Harley Bryn Willard ('17 , víti)
1-1 Arnleifur Hjörleifsson ('47 )
1-2 Bjarni Guðjón Brynjólfsson ('56 )
2-2 Sverrir Páll Hjaltested ('63 )
2-3 Harley Bryn Willard ('84 , víti)
2-4 Kristófer Kristjánsson ('92 )
Rautt spjald: Sverrir Páll Hjaltested, Kórdrengir ('90) Lestu um leikinn

Þór vann fjórða sigur sinn í Lengjudeildinni í sumar er liðið bar sigurorð af Kórdrengjum, 4-2, á Framvellinum í Safamýri í kvöld en gestirnir tryggðu sigurinn með tveimur mörkum á síðustu mínútum leiksins.

Gestirnir tóku forystuna á 17. mínútu eftir að Alexander Már Þorláksson fiskaði vítaspyrnu. Hann náði að pota boltanum fram fyrir Nikita Chagrov í marki Kórdrengja. Harley Willard skoraði örugglega af punktinum.

Aron Birkir Stefánsson, markvörður Þórsara, átti hörku vörslu eftir skot Sverris Páls Hjaltested og svo á 33. mínútu vildu heimamenn fá vítaspyrnu er Daníel Gylfason var tekinn niður í teignum en dómarinn sá ekkert athugavert við það.

Arnleifur Hjörleifsson jafnaði fyrir Kórdrengi í upphafi síðari hálfleiks með marki beint úr aukaspyrnu en Bjarni Guðjón Brynjólfsson svaraði eftir að Chagrov kýldi fyrirgjöf Willard út Bjarna, sem skoraði.

Sverrir Páll jafnaði metin sjö mínútum síðar. Daníel átti skalla í stöng en Sverrir var réttur maður á réttum stað og náði að hirða frákastið og skora.

Kórdrengir voru hársbreidd frá því að komast yfir. Fyrst björguðu Þórsarar á línu og fór boltinn hátt upp í loft áður en Daníel fleygði sér í hjólhestaspyrnu sem rataði í slá og yfir.

Heimamönnum fannst halla á dómgæsluna í leiknum og vildu fá varnarmann Þórs af velli eftir brot en fengu ekki. Guðmann Þórisson, varnarmaður Kórdrengja, var svo spjaldaður í hita leiksins og áfram hélt leikurinn.

Það lá í loftinu að Þórsarar myndu gera næsta mark. Chagrov varði vel þegar Alexander Már slapp í gegn en stuttu síðar fengu Þórsarar vítaspyrnu þegar Alexander var fellur í teignum. Willard fór aftur á punktinn og sendi Chagrov í vitlausa átt.

Sverrir Páll var rekinn af velli undir lok leiks. Daníel virtist kýla frá sér þegar Kórdrengir fengu hornspyrnu og var mikill hiti þar sem Sverrir fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Þórsarar keyrðu þá í kjölfarið upp í skyndisókn og gerðu út um leikinn í gegnum Krístófer Kristjánsson.

Lokatölur 4-2 fyrir Þór sem nælir í fjórða sigur sinn í sumar og er liðið nú með 14 stig í 10. sæti og nær að slíta sig úr fallbaráttunni á meðan Kórdrengir eru í 8. sæti með 16 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner