„Hann er búinn að koma inn upp á síðkastið, hann og Björgvin Brimi líka," sagði Pálmi Rafn Pálmason, þjálfari KR, er hann var spurður út í son sinn eftir tap KR gegn Breiðabliki í Bestu deildinni í gær.
Hinn 14 ára gamli Alexander Rafn Pálmason var í leikmannahópi KR gegn Breiðabliki.
Hinn 14 ára gamli Alexander Rafn Pálmason var í leikmannahópi KR gegn Breiðabliki.
Alexander er fæddur árið 2010 og því á eldra ári í 4. flokki en hann kom til KR frá Gróttu fyrir tveimur árum. Sumarið 2019 var hann meðal annars valinn í úrvalslið Orkumótsins í Vestmannaeyjum.
„Þeir hafa verið að standa sig vel í sumar í 2. flokknum og hafa átt tækifærið skilið," sagði Pálmi eftir leikinn.
„Það eru fleiri leikmenn sem hafa verið að æfa með okkur. Við erum með bræðurna Dag og Óðin mikið með okkur en þeir eru að ná sér í reynslu hjá KV og því gátum við ekki tekið þá inn í hópinn í kvöld, sem við hefðum annars gert. Þeir eru þar til að halda áfram að bæta sig og fá fleiri leiki."
„Sonur minn og fleiri ungir fá sénsinn þegar þeir vinna sér hann inn. Þá er það bara þannig. Það er alveg sama hver það er, ef þú stendur þig vel þá færðu sénsinn hjá okkur."
Jón Arnar Sigurðsson er yngsti leikmaður til að spila fyrir KR er hann kom inn á í 4-0 sigri á ÍBV fyrir tveimur árum. Þá var hann 15 ára og 96 daga gamall, en Alexander hefði slegið það met ef hann hefði komið inn af bekknum í gær. Hann var hins vegar ónotaður varamaður.
KR er tveimur stigum frá fallsæti eftir tapið í gær.
Athugasemdir