FH tekur á móti KR á Kaplakrikavelli í 3. umferð Bestu deildarinnar klukkan 18:00 í dag. Um fyrsta grasleik í Bestu deildinni þetta árið er að ræða.
Lestu um leikinn: FH 2 - 2 KR
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, ræddi við Fótbolta.net í gær og var hann spurður út í leikinn gegn FH.
„Það bíður upp á áskorun sem við hlökkum til að takast á við. Það er aðeins öðruvísi undirlag og leikurinn gæti þróast öðruvísi heldur en á gervigrasi. Við sáum það berlega í síðustu viku þar sem tvö lið mættust sem höfðu mæst á öðru undirlagi stuttu áður. Það voru engin líkindi með þeim leikjum, en það var ekki eins og liðið sem vann fyrri leikinn væri allt í einu orðið ömurlega lélegt fótboltalið, þetta er bara aðeins öðruvísi," sagði Óskar og vísaði þar í leiki ÍBV og Víkings.
„Svo er þetta, held ég, spurning um hvernig þú kemur innstilltur í leikina. Ætlaru að láta undirlagið stjórna þér og finna því öllu til foráttu? Við vitum að Krikinn verður ekki góður, en við getum ekki látið það stjórna okkur. Við verðum að hafa stjórn á því sem við getum stjórnað, sem er að reyna spila okkar leik og vera klárir í þá baráttu sem bíður okkar. Við vitum að Krikinn er erfiður völlur heim að sækja og FHingarnir eru særðir og hafa kannski ekki byrjað mótið eins vel og þeir vildu. En við vitum það líka að þeir hafa spilað vel á grasi, spiluðu vel í tveimur leikjum úti á Spáni, gegn Vålerenga og Rosenborg, og voru svo fínir gegn Breiðabliki. Það er ekki eins og við mætum og höldum að við fáum eitthvað ókeypis í Krikanum."
„Við verðum að þora að spila okkar leik og ekki láta óttann við undirlagið eða óttann við að það verði auðveldara að gera mistök stjórna okkur."
„Við æfum á okkar gervigrasi, reynum að gera hlutina hratt og vel. Ég held að það sé best," sagði Óskar um undirbúninginn. „En það eru kannski aðeins öðruvísi leiðir sem við þurfum að huga að, hvernig við reynum að sauma saman sóknarleikinn okkar þegar við erum á þessu undirlagi - á móti svo gervigrasi - það er alveg klárt. Við þurfum að vera hugmyndaríkir," sagði þjálfarinn í gær.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 2 | 2 | 0 | 0 | 6 - 0 | +6 | 6 |
2. Stjarnan | 2 | 2 | 0 | 0 | 4 - 2 | +2 | 6 |
3. Valur | 3 | 1 | 2 | 0 | 7 - 5 | +2 | 5 |
4. Vestri | 2 | 1 | 1 | 0 | 2 - 1 | +1 | 4 |
5. Fram | 2 | 1 | 0 | 1 | 4 - 3 | +1 | 3 |
6. KR | 3 | 0 | 3 | 0 | 7 - 7 | 0 | 3 |
7. Breiðablik | 2 | 1 | 0 | 1 | 4 - 4 | 0 | 3 |
8. ÍA | 2 | 1 | 0 | 1 | 2 - 2 | 0 | 3 |
9. FH | 3 | 0 | 1 | 2 | 3 - 5 | -2 | 1 |
10. Afturelding | 2 | 0 | 1 | 1 | 0 - 2 | -2 | 1 |
11. ÍBV | 2 | 0 | 1 | 1 | 0 - 2 | -2 | 1 |
12. KA | 3 | 0 | 1 | 2 | 3 - 9 | -6 | 1 |
Athugasemdir