Konráð Gíslason, Konni, hefur verið einn aðalstuðningsmaður Þróttara í mörg ár. Nú hefur verið búið til sérstakt lag honum til heiðurs og myndband með þar sem hann leikur sjálfur aðalhlutverkið.
,,Við Köttarar höfum verið einna duglegastir að semja lög fyrir okkar menn í Þrótti, ef við ættum titil fyrir hvert lag sem við höfum samið þá værum við KR," segir Sóli Hólm sem syngur lagið með því að herma eftir Pálma Gunnarssyni. Um er að ræða lag frá Billy Joel sem Sóli samdi nýjan texta við.
,,Í þessum lögum hefur oft verið minnst á Konna, okkar dyggasta stuðningsmann, en mér fannst tími kominn til að hann fengi eigið lag."
,,Hann er okkar dyggasti stuðningsmaður og mætir á hvern einasta leik sem spilaður er á höfuðborgarsvæðinu og hefur margoft fylgt liðinu út á land."
,,Frá því að ég byrjaði að fylgjast með Þrótti hefur Konni alltaf verið á leikjum, hann er bara eins og Lóan, hann er minn vorboði."
,,Mér, og öllum Kötturum, þykir óendanlega vænt um Konna og hans framlag til félagsins og þetta lag er fyrst og síðast hugsað til að þakka Konna fyrir tryggðina."
Hér að neðan má sjá lagið.
Athugasemdir