Manchester United og Aston Villa áttust við í æfingaleik í Ástralíu í dag.
Fyrri hálfleikurinn var frekar lokaður en tvö af þremur skotum Manchester United á markið fóru í netið. Eftir frábæran samleik átti Luke Shaw sendinguna fyrir og Jadon Sancho skoraði með góðu skoti og kom United yfir á 25. mínútu.
Rúmum tíu mínútum síðar var Sancho í svipuðu færi en Martinez sá við honum.
Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks átti Rashford misheppnað skot sem fór af Matty Cash og í netið, 2-0 í hálfleik.
Leon Bailey kom inná í lið Aston Villa í upphafi síðari hálfleiks en á 49. mínútu átti hann góðan sprett upp kanntinn og leitaði inn á teiginn. Hann skrúfaði boltann svo í fjærhornið og minnkaði muninn.
Bailey var líflegur í síðari hálfleik en tókst ekki að skora. Villa menn voru þó ekki hættir. Bailey vann hornspyrnu í uppbótartíma sem hann tók sjálfur, Callum Chambers reis manna hæst í teignum og skallaði boltann í netið, 2-2 lokatölur.