Rafael Benitez og fleiri stjórar sátu fyrir spurningum eftir leiki dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Everton tók á móti nýliðum Watford og steinlá eftir að hafa verið 2-1 þar til á 78. mínútu. Watford kom þá til baka með ótrúlegum hætti og skoraði fjögur mörk á þrettán mínútum.
„Það er erfitt að útskýra þetta, við fengum fjögur mörk á okkur á nokkrum mínútum. Við getum ekki leyft okkur að gera svona mistök í ensku úrvalsdeildinni. Þegar við skorum annað markið þá stjórnum við leiknum en svo gerum við mistök eftir mistök og ég get ekki útskýrt þetta," sagði Benitez að leikslokum. „Við verðum að gera betur."
Demarai Gray, leikmaður Everton, tók í svipaða strengi og stjórinn og segir að leikmenn verði að líta í eigin barm.
„Við vorum í góðri stöðu og Watford gerði okkur erfitt fyrir en þetta er óásættanleg niðurstaða. Stjórinn gerði okkur fyllilega grein fyrir því. Við verðum að halda einbeitingu og gera hlutina almennilega. Við sem einstaklingar þurfum að líta í eigin barm og bæta fyrir þessa frammistöðu."
Southampton gerði jafntefli við Burnley og voru báðir stjórar nokkuð sáttir með stig að leikslokum. Christian Benteke, fyrirliði Crystal Palace, var þó svekktur eftir jafntefli gegn Newcastle.
„Við áttum augljóslega skilið að vinna þennan leik. Við fengum færi til að vinna en nýttum þau ekki. Við erum að spila betri fótbolta en áður og þurfum að halda áfram að gera það, stjórinn gefur okkur mikið sjálfstraust," sagði Benteke, sem hélt hann hefði gert sigurmarkið á 87. mínútu en það ekki dæmt gilt.
„Þetta er partur af leiknum og við verðum að samþykkja þetta. Á síðustu leiktíð var VAR okkur hliðhollt nokkrum sinnum en í dag var það ekki svo."
Athugasemdir