Arsenal reiðubúið að spreða í framherja - Real Madrid ætlar að leggja fram annað tilboð í Trent - Cambiaso til Man City?
   fim 24. mars 2022 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Dagur á förum frá AGF - Fer að öllum líkindum frá Danmörku
Mynd: AGF
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur Þorsteinsson sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag. Hann var mikið spurður út í framtíð sína en hann er að renna út á samningi í sumar, vera hans hjá AGF virðist vera á enda eftir þrjú ár hjá félaginu. Hann fór fyrst til Danmerkur haustið 2018 og lék á láni hjá Vendsyssel frá Fulham. Ári seinna samdi hann til þriggja ára við AGF.

Jón Dagur er 23 ára vængmaður sem á að baki sextán A-landsleiki og lék á sínum tíma 23 leiki með U21 landsliðinu.

„Ég býst við því að ég eigi tíu leiki eftir hjá AGF og svo muni ég prófa eitthvað annað. Það getur breyst en miðað við hvernig þetta hefur þróast býst ég við því að fara í sumar," sagði Jón Dagur.

Verður líklega ekki áfram í Danmörku
Talað hefur verið um áhuga annarra danskra félaga á Jóni Degi, nú síðast OB í dag. Áttu von á því að vera áfram í Danmörku eða áttu frekar von á því að fara einhvert annað?

Sjá einnig:
Svo gott sem staðfestir áhugann á Jóni Degi

„Ég býst ekki við að vera áfram í Danmörku ef ég fer frá AGF. Ég held að þetta séu bara sögusagnir, ég hef ekki verið í neinu sambandi við önnur dönsk félög og efast um að ég muni gera það."

Hafnaði nýjum samningi
Ertu svekktur hvernig málin hafa þróast hjá AGF, hefðiru viljað vera áfram hjá félaginu?

„Mér var boðinn nýr samningur en mér finnst vera kominn tími á að prófa eitthvað annað. Ég er búinn að vera í þrjú ár hjá AGF. Tímabilið í ár hefur verið vonbrigði, við erum búnir að vera lélegir, ekkert gengið hvorki fram á við né til baka. Fyrri hlutann vorum við í vandræðum með að skora og núna allt í einu getum við ekki varist. Það hafa margir hlutir klikkað hjá okkur. Ef við förum í draumaheiminn þá hefði ég viljað að þetta tímabil hefði verið betra."

Vill fara til liðs sem spilar meiri fótbolta
Hvert langar þig að fara?

„Ég er frekar opinn með það, ekki búinn að ákveða neitt og er þannig séð ekkert að stressa mig á þessu. Ég ætla að taka mér tíma í að velja næsta skref. Hvenær það mun verða mun koma í ljós, ég veit ekkki hvenær það verður. Mig langar að komast í lið sem spilar meiri fótbolta og hentar mér betur - það skiptir meira máli en landið. Á þessu tímabili erum við í AGF búnir að vera lélegir og búið að vera erfitt sem sóknarmaður."

Svekkjandi að horfa á lokakaflann frá bekknum
Spilar það inn í þína ákvörðun að þú hafir sjaldan fengið að klára leikina þó að þú sért oftast í byrjunarliðinu?

„Já, algjörlega. Þetta er búið að vera svolítið lengi svona en það má segja að það hafi verið upplegg hjá okkur fyrir leiki, að kantmennirnir myndu fara út þegar 20 mínútur væru eftir. Það var að virka hjá liðinu en var ekki staða sem ég vildi vera í. Ég vildi ekki vera farinn út af þegar leikurinn var að opnast undir lok leikja."

„Að horfa á þann kafla frá bekknum gat verið svekkjandi. Fyrstu tvö árin var þetta upplegg að virka og það var erfitt að vera eitthvað svekktur með stöðuna. Að því sögðu var þetta ekki staða sem ég vildi vera í."


Sjá einnig:
Twitter - Landsliðsþjálfarinn skýtur á þjálfara AGF

Opinn fyrir Championship deildinni
Adam Ægir Pálsson, jafnaldri Jóns Dags, var gestur í Dr. Football á dögunum. Adam vildi meina að Jón vildi fara í ensku Championship deildina. Jón Dagur hló þegar fréttaritari bar upp spurninguna.

„Eins og ég sagði áðan er ég mjög opinn. Ég var auðvitað á Englandi en náði ekki að spila með Fulham þegar liðið var í Premier League og Championship. Auðvitað væri ég opinn fyrir því að fara þangað, það er skemmtileg deild. Hún er hluti af því sem ég er opinn fyrir," sagði Jón Dagur.
Athugasemdir
banner
banner
banner