Miðjumaðurinn Joshua Kimmich segir að Julian Nagelsmann sé einn af þremur bestu þjálfurunum sem hann hefur unnið með á ferli sínum.
Bayern München tók ákvörðun um það í gær að reka Nagelsmann úr starfi.
Ráðamenn hjá Bayern komust að þeirri niðurstöðu að þau tíu stig sem Bayern hefur misst af á þessu ári séu stjóranum að kenna. Markmiðið hjá Bayern er að vinna deildina og staðan í deildinni óásættanleg. Ákveðið var að landsleikjahléið væri rétti tímapunkturinn til að reka Nagelsmann og fá inn Thomas Tuchel.
Kimmich er einn af lykilmönnum Bayern en hann er núna í verkefni með þýska landsliðinu. Hann var spurður út í tíðindin á fréttamannafundi í dag og hrósaði þar Nagelsmann í hástert.
„Ég get ekki sagt mikið þar sem Bayern er ekki búið að staðfesta tíðindin. Ég get bara sagt að Nagelsmann er frábær þjálfari. Ég hef verið með marga stórgóða þjálfari en hann er í topp þremur hjá mér," sagði Kimmich.
Nagelsmann er aðeins 35 ára og þykir hann vera einn efnilegasti þjálfari í heimi.
Athugasemdir