,,Ég held að þetta hafi verði nokkuð sanngjörn úrslit," sagði Ólafur Jóhannesson þjálfari Hauka eftir 1-1 jafntefli í Grindavík í kvöld.
,,Grindvíkingar eru með gott lið og spila góðan fótbolta. Við fórum aðeins til baka og reyna að þétta okkur og verjast. En þeir fengu nokkur færi, við fengum þau svosem líka svo í heildina var ég bara ánægður."
Grindavík skoraði á 91. mínútu en Haukar jöfnuðu þremur mínútum síðar. Var Óli farinn að sætta sig við tap þegar hann lenti undir svona seint?
,,Maður sættir sig ekki við tap fyrr en leikurinn er flautaður af en auðvitað var hrikalega svekkjandi að lenda 1-0 undir en ég held það sé meira svekkjandi að missa það niður í 1-1 svo ég held að þeir séu svekktari en við."
Grindavík er mikið sóknarlið en Haukar héldu þeim í 0-0 í 90 mínútur.
,,Við lögðum það upp að liggja til baka, vera þéttari og halda markinu hreinu. Og reyna að fá möguleika á að setja mark. Ég er sáttur við að fá eitt stig gegn erfiðu góðu liði."
Toppbaráttan í 1. deildinni er mikil og aðeins fjögur stig á milli 1. og 5. sætis.
,,Þegar þú ert í þessari deild hlýtur markmiðið að vera að fara upp um deild. Ég held að það sé hjá ansi mörgum liðum. Mér sýnist stefna í að ansi mörg lið eigi möguleika í það og það verði ótrúlega skemmtileg keppni. Það er bara næsti leikur og þetta eru nánast allt úrslitaleikir. Við erum að spila lið sem er í toppbaráttu því það eru 8 lið í toppbaráttu svo það er alltaf toppbarátta."
Nánar er rætt við hann í sjónvarpinu að ofan.
Athugasemdir