Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, var rekinn af velli í 2-1 tapi Fram gegn Víkingum fyrr í kvöld. Hann kom engu að síður í viðtal að leik loknum.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 1 Fram
„Sorglegt tap. Ég er ótrúlega stoltur af mínu liði, hversu mikið þeir lögðu mikið í þetta og hversu öflugir þeir voru. Við náðum að loka vel á Víkinga, þeir opnuðu okkur kannski tvisvar, þrisvar í fyrri hálfleik en nýttu ekki þá sénsa. Í síðari hálfleik fannst mér þeir ekki opna okkur neitt og leikurinn í jafnvægi.“
Fram fékk á sig umdeilda vítaspyrnu.
„Það er ákvörðun dómarans, sem er að mínu mati besti dómari landsins, hann leyfir oftast smá hörku sem er flott. Ég held að hann hafi gert stór mistök í að dæma vítaspyrnu. Í kjölfarið vilja þeir að markvörðurinn okkar hafi hreyft sig of snemma af línunni, ef svo er þá hlýtur það að vera rétt.“
„Ég set spurningamerki við aðhlaup Helga líka, hann nánast stoppar í aðhlaupinu sem er bannað líka. Menn gleyma stundum að horfa á það líka. Ég er ekki viss um að þeir hafi horft á spyrnumanninn.“
Rúnar fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiks.
„Ég missti mig aðeins. Alex og Helgi lenda í samstuði, Alex er hrint í bakið og lendir hné í hné við Helga sem liggur sárkvalinn eftir. Dómarinn dæmir ekki og leikurinn heldur áfram. Svo því að Helgi er kvalinn og dómarinn stoppar leikinn. Allt í einu dæmir hann aukaspyrnu og gefur Alexi gult spjald þegar hann ætlaði ekki að dæma. Það fyllti aðeins mælinn. Þetta var bara hluti leiksins. Svo var ég búinn að fá alveg nóg og lét gamminn geisa.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir