Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 25. júlí 2024 09:50
Fótbolti.net
Fréttaskýring
HM félagsliða – Hvað er í húfi?
Heimsmeistaramót félagsliða með nýju fyrirkomulagi 2025
Gianni Infantino forseti FIFA með verðlaunagripinn sem keppt er um á HM félagsliða.
Gianni Infantino forseti FIFA með verðlaunagripinn sem keppt er um á HM félagsliða.
Mynd: Getty Images
Höfuðstöðvar FIFA.
Höfuðstöðvar FIFA.
Mynd: EPA
Gríðarlegir fjármunir eru í kringum sjónvarpsrétt.
Gríðarlegir fjármunir eru í kringum sjónvarpsrétt.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í vikunni bárust fregnir af því að FIFA hafi staðfest leikdaga fyrir næsta ár og á því merka dagatali er gert ráð fyrir heimsmeistarakeppni félagsliða í Bandaríkjunum í júní/júlí á næsta ári.

FIFA hefur verið að kynna þessa keppni undanfarin misseri en mótið á að hafa nokkurs konar HM mótafyrirkomulag þar sem 32 félagslið taka þátt, 4 frá Afríku, 4 frá Asíu, 12 frá Evrópu, 4 frá Mið-og Norður Ameríku, 1 lið frá Eyjaálfu og 6 lið frá S-Ameríku auk svo gestgjafans.

Evrópuliðin sem hafa tryggt sér þátttöku eru Chelsea, Real Madrid, Man City, Bayern München, PSG, Inter, Porto, Benfica, Borussia Dortmund, Juventus, Atletico Madrid og FC Salzburg, eiginlega allar stærstu peningamaskínur í evrópskum fótbolta að undanskildum kannski Barcelona og Manchester United.

Deildasamtökum og leikmannasamtökum ekki skemmt
Skemmst frá því að segja að deildasamtökin í Evrópu, European Leagues, og leikmannasamtök Evrópu, FIFPRO Europe, eru ekki par hrifin af þessari keppni og telja þennan aukna leikjafjölda stofna heilsu leikmanna í hættu auk þess sem FIFA hafi lítið sem ekkert samráð haft við þessa aðila þegar leikdagar næsta árs voru ákveðnir. Þessir sömu aðilar vilja m.ö.o. meina að þessi fyrirhugaða keppni sé til marks um að FIFA hafi aðeins eigin hagsmuni, fjárhagslega hagsmuni í huga, en horfi ekki til hagsmuna fótboltans í heild eða það tekjumódel sem deildirnar lifa á.

Af þessum sökum hafa EL og FIFPRO ákveðið leggja fram sameiginlega kæru til Evrópuráðsins vegna málsins. Það er litið svo á að FIFA sé beinlínis að grafa undan evrópskum fótbolta með þessari ákvörðun og sé einungis að skara eld að eigin köku. Óþarfi er að fara ítarlegra í þá „málssókn“ en hvað er í húfi fyrir FIFA annars vegar og deildirnar, félögin og leikmennina hins vegar?

Gríðarlegir fjármunir
Apple bauð um 1 milljarð dollara í réttindi deildarinnar, þ.e. sjónvarps og miðlunarréttindi á heimsvísu, sem samsvarar um 137 milljörðum íslenskra króna og var því boði fyrirtækisins snarlega hafnað af hálfu FIFA sem hefur sett sér það markmið að þessi réttindi skili um 4 milljörðum dollara, um 550 milljörðum íslenskra króna í tekjur fyrir mótið. Rétt er að hafa í huga að réttindasala á HM í Katar 2022 nam um 6,3 milljörðum dollara eða um 870 milljörðum króna og því er markið sett afar hátt í þeim samanburði.

Heildartekjur af HM í Katar voru um 1.100 milljarðar og miðað við sama hlutfall má áætla að heildartekjur sem FIFA reiknar með af þessum heimsmeistaramóti félagsliða sé í námunda við 670 – 700 milljarðar. Enn hefur ekki verið gengið frá sölu á þessum réttindum en þau eru í útboði um þessar mundir og fróðlegt að sjá hvort FIFA nær því markmiði að selja þessi réttindi fyrir 550 milljarða eins og stefnt er að. Í stað þess að bjóða réttindin út á heimsvísu er nú verið að skoða að bjóða þau út á hverju svæði fyrir sig og gæti það verið ávísun á að ekki sé eins mikill áhugi kaupenda og talið var. Í fjárhagsáætlun FIFA fyrir árið 2025 er mótið tekið út fyrir sviga og er áætlun fyrir mótið ekki með inni í heildaráætluninni.

Það hefur komið fram að verðlaunafé keppninnar til þessara 32ja liða sem þar taka þátt sé samanlagt um 2,7 milljarðar dollara, ríflega 370 milljarðar króna og fær hvert félagslið að lágmarki ríflega 7 milljarða króna fyrir að taka þátt, alveg óháð gengi í keppninni. Restin skiptist svo niður á milli félaganna eftir því hvernig þeim gengur og fái sigurvegarinn um 15 milljarða króna.

Augljóslega er eftir miklu að slægjast gangi þessar áætlanir FIFA upp varðandi tekjur af mótinu en hingað til hefur keppnin eins og hún var áður ekki skilað neitt sérstaklega miklum tekjum fyrir FIFA, a.m.k. ekki í samanburði við t.d. HM og aðrar keppnir.

Rétt er að hafa í huga að umtalsverður hluti tekna FIFA, langmest frá HM, fer til aðildarsambandanna í formi alls kyns fjárstuðnings í tiltekin verkefni en þeir fjármunir rata ekki til félagsliðanna. UEFA hins vegar, sem skipuleggur EM og allar evrópukeppnir félagsliða, lætur félagsliðum um alla Evrópu í té fjármuni jafnvel þó að þau taki ekki þátt í keppnunum og er það almennt samkomulag félagsliðanna þar um. Á það hefur verið bent að það skjóti skökku við að FIFA ætli sér að halda úti stórri keppni félagsliða sem einungis hagnist þeim félögum sem taka þátt og svo auðvitað samtökunum sjálfum og hugsanlega þar með knattspyrnusamböndunum en ekki félögunum.

Neikvæð áhrif á deildakeppnir Evrópu og leikmenn
Í „kvörtun“ European Leagues og FIFPRO er jafnframt bent á það að slík keppni geti haft gríðarlega neikvæð fjárhagsleg áhrif á deildarkeppnir í Evrópu, það er ekki endalaus eftirspurn eftir afþreyingunni þó svo að ekkert lát virðist vera á akkúrat núna. Þessi umrædda keppni geti orðið til þess að verðmæti einstakra deilda geti minnkað, það skaði menningar – og félagslíf í löndum Evrópu og að endurskoða þurfi alla leikmannasamninga m.t.t. sumarfría þeirra og hvíldar á milli deildarkeppna. Það eru því bæði fjárhagslegar ástæður og svo þær sem tengjast heilsu leikmanna sem verða til þess að evrópski knattspyrnuheimurinn hefur áhyggjur af þessari þróun.

Í nýlegri samantekt CIES Football Observartory (stofnun sem safnar ýmsum tölulegum upplýsingum úr fótboltaheiminum) kemur fram að félagsliðin í 5 stærstu deildum Evrópu sem taka þátt í UEFA keppnunum leiki að jafnaði ríflega 50 leiki á tímabili fyrir sitt félagslið og þá eru ótaldir leikir með landsliðum og æfingaleikir eða sýningaleikir. Read Madid lék t.d. 55 keppnisleiki á tímabilinu 2023/2024. Augljóslega hefur slíkt leikjaálag gríðarleg áhrif á leikmennina en FIFA hefur bent á að skipulagðir leikir félagsliða á vegum sambandsins séu mjög lítið brot af þessum leikjafjölda, álagið sé vegna leikja í deildum, bikar og evrópukeppnum. Það vill svo til að einmitt þessir leikir halda fótboltanum gangandi frá degi til dags og eru tekjupóstar deildanna og liðanna.

Hvað með Ísland?
Gæti þessi keppni haft einhver áhrif t.d. hér á íslensk félagslið fjárhagslega? Svarið er já og þá á þann hátt að mótið gæti haft neikvæð fjárhagsleg áhrif á íslenskan fótbolta. Í dag njóta félagsliðin hér þess að hér er sumardeild sem eykur verulega verðmæti deildarinnar m.t.t. sölu á réttindum erlendis, s.s. gagna og streymisréttindum. Lítið er almennt um fótbolta í Evrópu og víðar á þessum tíma, deildirnar í fríi og íslenska deildin og nokkrar aðrar njóta góðs af því að það vantar fótbolta inn á markaðinn á þessum tíma. Með því að bæta þessu móti inn í sumarið þegar ekki er HM og EM þá gæti það með beinum hætti lækkað umtalsvert verðmæti okkar deilda í þessu samhengi þó að auðvitað sé ekki hægt að fullyrða um hversu mikill sá skaði gæti orðið.

Það verður a.m.k. fróðlegt að fylgjast með því hvernig málin þróast. Hvað sem hver segir þá eru evrópsku stórliðin alger forsenda þess að hægt sé að halda þessari keppni úti og fá af henni þær tekjur sem FIFA reiknar með í sínu módeli. Ef tekjur vegna réttindasölu verða lægri heldur en FIFA reiknar með, þ.e. lægri heldur en þeir 550 milljarðar króna sem vonast er eftir, þá liggur alveg fyrir að FIFA mun leita til þátttökufélaganna um að lækka greiðslur til þeirra. Þetta er því ákveðin klemma sem FIFA er í, þ.e. að reyna að sannfæra evrópsku félögin og leikmenn þeirra um að taka þátt en á sama tíma hugsanlega þurfa að lækka greiðslur til þeirra takist ekki að selja réttindi keppninnar í samræmi við væntingar.

Evrópskur fótbolti hefur þetta mót nánast í hendi sér og spurningin verður einfaldlega sú hvort að hægt verði að finna einhverja þá lausn sem báðir aðilar, þ.e. FIFA og evrópsk félagslið og leikmenn, geta sætt sig við. Líklegast er að sú lausn felist í meiri fjármunum til félagsliðanna og þar með leikmanna, ekki bara þeirra félaga sem taka þátt í keppninni heldur líka að hluta til annarra félagsliða í álfunni, ekki ósvipað því sem gert er með tekjur UEFA að evrópukeppnunum. Lykilatriðið í þessu öllu saman er svo hvernig tekst til með að selja réttindi mótsins og hvort að sú sala verði í samræmi við væntinga FIFA; 550 milljarðar bara fyrir miðlaréttindi er dágóð summa.
Athugasemdir
banner