Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
   sun 25. ágúst 2024 22:28
Brynjar Ingi Erluson
VAR óvinur Loga og Stefáns - Lærisveinar Freysa töpuðu
Stefán Ingi var rændur af VAR
Stefán Ingi var rændur af VAR
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það var einnig tekið mark af Loga
Það var einnig tekið mark af Loga
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Barkar þreytti frumraun sína með Zulte Waregem
Atli Barkar þreytti frumraun sína með Zulte Waregem
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Myndbandstæknin VAR var í sviðsljósinu hjá Íslendingunum í Evrópu í dag en þeir Logi Tómasson og Stefán Ingi Sigurðarson urðu fyrir barðinu á tækninni.

Stefán Ingi var í byrjunarliði Sandefjord á meðan Hilmir Rafn Mikaelsson byrjaði hjá Kristiansund.

Hilmir slapp einn í gegn á fyrstu mínútu leiksins en setti boltann yfir markvörðinn og markið. Tuttugu mínútum síðar var Stefán rændur marki.

Jakob Dunsby, liðsfélagi Stefáns, fór upp í einvígi við Oskar Siira Sivertsen og vann boltann sem datt fyrir Stefán. Framherjinn kláraði færið, en þá var flautað brot á Jakob. Það var síðan staðfest í gegnum VAR, en virkaði þó fremur ódýrt brot.

Sandefjord hafði 1-0 sigur að lokum og er nú í 14. sæti með 20 stig en Kristiansund í 12. sæti með 21 stig.

Logi Tómasson kom þá boltanum í netið í 5-2 tapi gegn Viking. Staðan var 4-1 þegar Logi skoraði. Boltinn datt fyrir hann eftir aukaspyrnu og í markið. VAR tók það af vegna rangstöðu, annar Íslendingurinn sem er sviptur marki í dag.

Hefði getað verið kveikiþráðurinn að endurkomu en VAR sagði nei og urðu lokatölur 5-2 Viking í vil. Strömsgodset er í 10. sæti með 23 stig.

Brynjar Ingi Bjarnason var í byrjunarliði Ham/Kam sem tapaði 3-0 gegn Molde. Viðar Ari Jónsson kom inn af bekknum í hálfleik. Ham/Kam er í 8. sæti með 24 stig.

Júlíus Magnússon lék allan leikinn með Fredrikstad sem tapaði fyrir Haugesund, 1-0. Anton Logi Lúðviksson var allan tímann á varamannabekk Haugesund. Fredrikstad er í 5. sæti með 31 stig en Haugesund í 13. sæti með 21 stig.

Óskar Borgþórsson var í byrjunarliði Sogndal sem tapaði fyrir Ranheim, 2-0, í norsku B-deildinni. Sogndal er í 6. sæti með 30 stig.

Hlynur Freyr Karlsson kom inn af bekknum í 2-1 tapi Brommapojkarna gegn AIK í sænsku úrvalsdeildinni. Brommapojkarna eru í 10. sæti með 25 stig.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Kortrijk töpuðu fyrir Charleroi, 1-0, í fimmtu umferð belgísku úrvalsdeildarinnar. Patrik Sigurður Gunnarsson stóð í marki Kortrijk sem er í 12. sæti með 6 stig.

Atli Barkarson lék þá sinn fyrsta leik með belgíska liðinu Zulte Waregem í 2-2 jafntefli gegn Deinze í B-deildinni. Atli lék allan leikinn með Waregem sem er í 11. sæti með 1 stig eftir tvo leiki.
Athugasemdir
banner
banner