Barcelona og Real Madrid áttust við í úrslitaleik spænska konungsbikarsins í kvöld og úr varð gríðarlega skemmtilegur slagur.
Börsungar höfðu að lokum betur 3-2 eftir framlengingu þar sem ekki vantaði dramatíkina.
Staðan var 2-2 í uppbótartíma venjulegs leiktíma og vildu Börsungar fá tvær vítaspyrnur, sem þeir fengu þó ekki. Í fyrra skipti féll Ferran Torres til jarðar og í seinna skiptið var það Raphinha.
Þegar Raphinha féll niður dæmdi Ricardo de Burgos vítaspyrnu en hætti svo við dóminn eftir að hafa verið sendur í skjáinn. Í endursýningunni virtist Raphinha misstíga sig og láta sig detta til jarðar í kjölfarið svo De Burgos ákvað að spjalda hann fyrir leikaraskap.
Þessar ákvarðanir dómarans eru afar umdeildar, en Madrídingar voru einnig æfir út í dómarann að leikslokum.
Þegar leikmenn gengu til búningsklefa í hálfleik kvartaði Jude Bellingham undan því að allar 50/50 ákvarðanir væru að falla með Börsungum og undir lok framlengingarinnar missti Antonio Rüdiger algjörlega stjórn á skapi sínu og ætlaði að vaða í dómara leiksins, en var stöðvaður.
Sjáðu fyrra atvikið
Sjáðu seinna atvikið
Athugasemdir