Arsenal reynir við Kounde - Vardy orðaður við Wrexham - Antony gæti verið áfram hjá Betis
   lau 26. apríl 2025 23:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Eftirminnilegir dagar hjá Arnóri Gauta: Sofnaði með gæsahúð bæði kvöldin
Góð stund eftir sigurinn í Mosó.
Góð stund eftir sigurinn í Mosó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Með kærustunni á bekknum hjá Álftanesi.
Með kærustunni á bekknum hjá Álftanesi.
Mynd: Aðsend
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurmarkinu fagnað.
Sigurmarkinu fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Gauti Ragnarsson upplifði tvö mjög eftirminnileg kvöld í vikunni. Á fimmtudagskvöld var hann hluti af liði Aftureldingar sem vann sinn fyrsta sigur í efstu deild með því að leggja Víking að velli í Bestu deildinni. Í gærkvöldi var hann svo á varamannabekk Álftaness þegar liðið lagði Tindastól að velli í háspennuleik. Liðin voru að spila sinn annan leik í undanúrslitum Bónus deildarinnar í körfubolta.

Fótbolti.net ræddi við Gauta, eins og hann er yfirleitt kallaður, í dag.

„Maður er enn í mikilli sigurvímu eftir þessa tvo daga, en stutt er í næstu leiki og því þarf fljótt að snúa sér aftur að verkefnunum sem eru fram undan," segir Gauti.

„Þessi tvö kvöld gátu varla orðið betri! Mig hefur lengi dreymt um að sjá Aftureldingu vinna sinn fyrsta leik í efstu deild."

„Þegar maður hugsar til baka til tíma þar sem það voru fleiri í gæslu en á áhorfendapöllum, en í dag eru í kringum þúsund manns að mæta á leiki og stuðningurinn er ómetanlegur. Sérstaklega eftir svona leik þar sem hver einasti leikmaður skildi allt eftir inn á vellinum þá verður þessi tilfinning enn sterkari."


Gauti er framherji í liði Aftureldingar, hleypur yfirleitt og djöflast fyrir allan peninginn og reynir ofan á það að skora mörk. En á Álftanesi er hann í öðru hlutverki. Þar er hann styrktarþjálfari eins besta körfuboltaliðs landsins.

„Það er erfitt að lýsa því hversu mikið maður lifir sig inn í þessa leiki. Það er miklu erfiðara að vera á bekknum eða uppi í stúku heldur en inn á vellinum sjálfum. Þetta voru tveir stórir sögulegir atburðir, fyrsti sigur Aftureldingar í efstu deild og fyrsti sigur Álftaness í undanúrslitum. Þetta hafa verið einstakir dagar og ég sofnaði með gæsahúð bæði kvöldin. Þetta voru augnablik sem maður mun lifa lengi á."

En hvernig kemur það til að hann er í þjálfarateymi Álftaness?

„Ég byrjaði í teyminu um áramótin sem styrktarþjálfari. Það kom til út frá tengslum mínum við Valdimar sjúkraþjálfara auk þess sem kærastan mín Agnes sem er að læra sjúkraþjálfun, hefur verið að aðstoða Valdimar."

Hvernig er að vinna með þjálfarateymi Álftaness?

„Leikmennirnir hafa tekið virkilega vel á móti mér og það eru algjör forréttindi að fá að vinna með þjálfurunum, Kjartani Atla og Hjalta. Þeir eru frábærir einstaklingar og ég hef lært heilan helling af þeim á þessum stutta tíma sem ég hef verið með þeim, bæði hvað varðar þjálfun og færni þeirra í samskiptum við leikmenn og alla þá sem koma að starfinu hjá Álftanesi. Sem dæmi má nefna að þeir voru meðal þeirra fyrstu sem sendu mér skilaboð eftir sigurleikinn gegn Víkingi, sem segir margt um karakter þeirra."

Eftir að lokaflautið gall í leiknum í gærkvöldi smellti þjálfarinn Kjartan Atli rembingskossi á hausinn á Gauta. Er það einhver hefð eða var það bara þetta augnablik?

„Já, það var óvænt „twist" í augnablikinu þegar hann smellti einum kossi á skallann á mér. Ætli það verði ekki að nýrri hefð eftir þetta!" segir Gauti léttur.

Næsti leikur Aftureldingar verður gegn Fram á Lambhagavellinum á mánudaginn og næsti leikur Álftaness verður í Síkinu á Sauðárkróki næsta þriðjudag.
Athugasemdir
banner
banner