Arsenal reynir við Kounde - Vardy orðaður við Wrexham - Antony gæti verið áfram hjá Betis
   lau 26. apríl 2025 13:27
Brynjar Ingi Erluson
England: Jackson skaut Chelsea upp í fjórða sæti
Nicolas Jackson var hetja Chelsea gegn Everton
Nicolas Jackson var hetja Chelsea gegn Everton
Mynd: EPA
Chelsea 1 - 0 Everton
1-0 Nicolas Jackson ('27 )

Chelsea er komið upp í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir að liðið vann Everton, 1-0, á Stamford Bridge í dag.

Lærisveinar Enzo Maresca létu kné fylgja kviði eftir góðan endurkomusigur á Fulham í síðustu umferð og voru með stjórnina mest allan fyrri hálfleikinn gegn Everton.

Noni Madueke fékk flott færi til að koma heimamönnum í forystu eftir fimmtán mínútna leik en Jordan Pickford sá við honum með laglegri vörslu.

Sigurmark leiksins gerði Nicolas Jackson þegar tæpur hálftími var liðinn. Beto tapaði boltanum við miðsvæðið og náði Enzo Fernandez að koma boltanum hratt á Jackson sem lét vaða af 20 metra færi og í netið.

Abdoulaye Doucoure fékk gott tækifæri til að jafna leikinn undir lok fyrri hálfleiks en skalli hans fór framhjá markinu.

Hálftíma fyrir leikslok var Beto nálægt því að jafna upp úr engu. Jack Harrison kom boltanum áfram á Beto sem tók fast skot í átt að marki en Robert Sanchez vandanum vaxinn í markinu.

Madueke var ekki langt frá því að gera út um leikinn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Hann átti gott hlaup og kláraði sóknina með lágskoti, en Pickford aftur vel á verði og kom hættunni frá.

Á lokamínútunum kom Jackson boltanum í netið í annað sinn í leiknum en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Pickford varði skot Marc Cucurella út á Jackson sem var vel fyrir innan og markið því réttilega dæmt af.

Everton-menn fóru framar á völlinn og fengu eitt frábært færi til að jafna er Dwight McNeil fékk sendingu frá Carlos Alcaraz, en Sanchez, sem hafði ekkert svakalega mikið að gera í leiknum, varði vel.

Chelsa tókst að halda út og er nú komið upp í 4. sæti deildarinnar með 60 stig, en Everton er áfram í 13. sæti með 38 stig.
Athugasemdir
banner