Jón Daði Böðvarsson spilaði stóra rullu er Burton Albion náði svo gott sem að bjarga sér frá falli úr ensku C-deildinni, en hann skoraði fyrra mark liðsins í 2-1 sigri á Cambridge United.
Bæði lið misstu mann af velli í fyrri hálfleiknum með rautt spjald og strax í byrjun síðari hálfleiks skoraði Jón Daði mark sitt.
Það var fimmta deildarmark hans síðan hann samdi við Burton í byrjun árs.
Cambridge jafnaði á 84. mínútu en Dylan Williams, sem lagði upp markið fyrir Jón Daða, náði að tryggja Burton sigurinn undir lokin og nánast tryggja áframhaldandi veru liðsins í C-deildinni.
Burton er í 20. sæti með 46 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti og með einn leik til góða. Markatala Burton er mun betri en hjá liðunum fyrir neðan og liðið því svo gott sem sloppið við fall.
Benoný Breki Andrésson byrjaði hjá Stockport County í 3-2 sigrinum á Lincoln.
Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir Lincoln og ákvað stjóri Stockport að gera breytingar. Benoný fór af velli ásamt tveimur öðrum leikmönnum og voru það einmitt varamennirnir sem náðu að gjörbreyta leiknum og tryggja 3-2 endurkomusigur.
Stockport er í 3. sæti með 84 stig og komið í umspil, en liðið á sennilega ekki möguleika lengur á að komast beint upp þar sem Wrexham er að vinna Charlton, 2-0.
Jason Daði Svanþórsson spilaði allan leikinn í markalausu jafntefli Grimsby Town gegn MK Dons í D-deildinni. Grimsby er í 8. sæti með 68 stig, einu sæti fyrir neðan umspil þegar ein umferð er eftir.
Guðmundur Þórarinsson og hans menn í Noah unnu 3-0 sigur á Ararat í armensku úrvalsdeildinni.
Bakvörðurinn lék allan leikinn í sigrinum og er Noah nú einum sigri frá því að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.
Athugasemdir