mán 27. mars 2023 22:40
Ívan Guðjón Baldursson
Keita skoraði og Mahrez lagði upp - Naumt tap hjá Færeyjum
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Í dag og í kvöld fóru ýmsir landsleikir fram, meðal annars leikir í undankeppni fyrir Afríkukeppnina á næsta ári.


Naby Keita, miðjumaður Liverpool, skoraði þar mikilvægt mark í 2-3 sigri Gíneu á útivelli gegn Eþíópíu. Gínea er á toppi D-riðils með 9 stig eftir fjórar umferðir, þremur stigum fyrir ofan Mohammed Salah og félaga í Egyptalandi sem eiga leik til góða.

Þá gerði Simon Moses eina mark leiksins í gífurlega mikilvægum sigri Nígeríu á Gíneu-Bissá. Nígería þurfti sigur til að endurheimta toppsætið, eftir að hafa tapað fyrri leik liðanna 0-1 í Nígeríu.

Nígería getur svo gott sem tryggt sér toppsæti riðilsins með sigri á erfiðum útivelli Síerra Leóne í næstu umferð, sem er jafnframt næstsíðasta umferð undankeppninnar.

Riyad Mahrez var þá í byrjunarliði Alsír og lagði eina mark leiksins upp í sigri gegn Níger. Sigurinn innsiglar toppsæti riðilsins þar sem Alsíringar eru með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir af sex.

Gínea-Bissá 0 - 1 Nígería

Angóla 1 - 1 Gana

Eþíópía 2 - 3 Gínea

Níger 0 - 1 Alsír

Þá fóru einnig vináttulandsleikir fram þar sem Norður-Makedónía rétt marði frændur okkar Færeyinga með einu marki gegn engu.

Grikkland gerði að lokum markalaust jafntefli við Litháen og Óman hafði betur gegn Líbanon.

Norður-Makedónía 1 - 0 Færeyjar

Grikkland 0 - 0 Litháen

Líbanon 0 - 2 Óman


Athugasemdir
banner
banner
banner