Onana orðaður við Sádí-Arabíu - Wharton til Liverpool - Barcelona búið að finna eftirmann Lewandowski
   sun 27. apríl 2025 10:50
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Magnús Þórir spáir í 4. umferð Bestu deildarinnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóan Símun skorar og leggur upp
Jóan Símun skorar og leggur upp
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexander Rafn innsiglar sigur KR
Alexander Rafn innsiglar sigur KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þór Llorens Þórðarson, leikmaður Kára, var með þrjá rétta þegar hann spáði í þriðju umferðina. Þar var hann m.a. með harrétt úrslit í fyrsta sigri Aftureldingar í efstu deild þegar liðið lagði Víking.

Magnús Þórir Matthíasson, lýsandi og fyrrum fótboltamaður, spáir í 4. umferð Bestu deildarinnar sem hefst í dag. Hann er ekki maður sem spáir jafnteflum.

Vestri 0-2 Breiðablik (Klukkan 14 í dag)
Þessi fræga Kára Ársæls rimma einsog gárungarnir kalla leiki þessara liða en það endaði 2-2 í fyrra á Ísafirði í hörku leik. Vestramenn eru hátt uppi með sjö stig í efsta sætinu og Davíð Smári á ótroðnum slóðum með sitt lið á meðan Breiðablik eru jarðtengdari eftir að hafa fengið Rúnar Kristins stúku hristing í 2.umferðinni. Þessi leikur verður ekki það mesta fyrir augað en Dóri Árna handjárnar Davíð Smára og lokatölur á Ísafirði verða 2-0 fyrir Breiðablik. Aron Bjarnason og Valgeir Valgeirsson með mörkin fyrir Blika.

KA 2-0 FH (16:15 í dag)
Botnbaráttuslagur og bæði lið á höttunum eftir fyrsta sigrinum eftir mjög þungar fyrstu 3.umferðirnar. Enginn Björn Daníel í FH-liðinu í þessum leik en hann tekur út leikbann og það munar um minna, vantar karaktera og reynslu í Hafnfirðinga og á sama tíma lifnar við stolti Akureyrar í efstu deild, KA. Jóan Símun vaknar eftir væran blund í upphafi móts og svarar gagnrýnisröddum með marki og stoðsendingu og fagnar markinu með því að sussa á myndavélarnar og beinir þar spjótum sínum að Alberti Brynjari og þessum svokölluðu sérfræðingum í Stúkunni. 2-0 sigur fyrir KA. Ásgeir Sigurgeirs gerir hitt mark KA liðsins.

KR 4-1 ÍA (19:15 í dag)
Vesturbæingar ennþá að leita að fyrsta sigrinum í Bestu deildinni og hann kemur í 4.umferð á móti Skagamönnum í Laugardalnum fallega. ÍA verða ringlaðir eftir fyrstu 30 mínúturnar þar KR verður með öll völd á vellinum, mikill hraði á kúlunni og staðan verður orðin 2-0 fyrir KR eftir mörk frá Eiði Gauta og Matthias Præst. Ómar Björn Stefánsson, sonur hins umdeilda Medda, lagar stöðuna rétt fyrir hálfleik. 2-1 hálfleikstölur. KR hefja seinni hálfleik af miklum krafti og skora strax eftir skyndisókn, 3-1 þar sem Atli Sigurjónsson rekur smiðshöggið. Leikurinn fjarar hægt og rólega út en Alexander Rafn Pálmason kemur inn af bekknum og rekur síðasta naglann í kistu Skagamanna. 4-1 lokatölur í hlýjunni í Laugardalnum.

Stjarnan 4-1 ÍBV (17:45 á morgun)
Stjörnumenn koma slegnir inn í þennan leik eftir erfiða síðustu viku, framlenging á móti Njarðvík í bikarnum sem endaði með sigri, þreyttir, og svo þungt tap á móti Breiðabliki þar sem Stjörnuliðið gerði allt það sem gat til að tefja stigið í hús en einsog Kiddi Kjærnested vinur minn sagði svo skemmtilega í útsendingunni þá kom Höggi þungu höggi á Stjörnumenn á lokasekúndum og tap niðurstaðan. Eyjamenn fullir sjálfstrausts eftir tvo sigra á Þórsvelli á móti Víkingum í bikarnum og svo Fram í deildinni byrja þennan leik af krafti og komast yfir eftir 10 mínútna leik 1-0. Bjarki Björn með markið, stöngin inn og Árni Snær Ólafsson fer í sína frægu stöðu og stendur grafkyrr á milli stangana. Ekkert meira skorað í fyrri hálfleik og Jöllarinn(ekki Jölli í SuitUp) tekur þrumu ræðu á sína menn í hálfleik og gerir þrefalda skiptingu. Adolf Daði, 22 mínútna maðurinn hingað til á tímabilinu, verður dreginn úr frystikistunni og hann þakkar traustið og setur 2 mörk. Stjörnumenn ganga frá Eyjamönnum á iðagrænu plastinu í síðari hálfleik 4-1 lokatölur, Emil Atlason og Jón Hrafn með hin mörk Stjörnunnar. Þorlákur Árnason tekur trylling á hliðarlínunni í seinni hálfleik og fær að líta rauða spjaldið.

Fram 2-0 Afturelding (19:15 á morgun)
Leikurinn þar sem tveir pólar mætast en gamli skólinn vs nútíminn. Mosóbrósarnir eiga það til að fljúga hátt og liggja svo kylliflatir stuttu seinna t.d. Guðmundur og Guðbjörn Pálssynir hafa gert það oft í gegnum tíðina og það mun verða raunin í dal draumanna á köldu mánudagskvöldi. Magnús Már og hans menn munu ekki ráða við reiða Framara sem fengu skell á móti ÍBV 3-1 tap niðurstaðan og innanbúðar vesen á Ólafi Íshólm sem var hluti af 5-6 manna fyrirliðateymi Rúnars. Fram munu þjappa sér vel saman og lemja á reynslulitlu liði Aftureldingar sem verða undir í baráttunni og lokatölur öruggur 2-0 sigur Framara en Fred mun skora úr vítaspyrnu og Grindvíkingurinn geðveiki Sigurjón Rúnarsson mun gera hitt markið af harðfylgi eftir hornspyrnu.

Valur 2-1 Víkingur (19:15 á morgun)
Stórleikur umferðarinnar þar sem Gylfi okkar Sig mætir á sinn gamla heimavöll þar sem honum leið mjög vel en hann hafði enga trú á að þetta Valslið gæti lyft titlum á komandi tímabili, fór í frægu fýluna og fékk félagaskipti í Víkina. Valsmenn verið að sigla undir radarinn í fyrstu leikjunum með besta leikmann deildarinnar innan sinna raða á meðan það hefur verið hikst í Evrópu-Víkingum og meiðsli verið að plaga hópinn. Þegar það rignir þá oft hellirignir og það er staðan hjá Víkingum og ég spái 2-1 sigri Valsmanna. Staðan verður 1-1 í hálfleik eftir mörk frá Patrick Pedersen og Valdimari Þór Ingimundarsyni. Seinni hálfleikur verður bráðfjörugur en mörkin munu láta bíða eftir sér. Sölvi mun gera það sem hann hefur verið að hugsa undanfarið og kippir Gylfa af velli á 70 mínútu sem mun koma mörgum í opna skjöldu. Þetta verður til þess að leikmenn Víkinga á vellinum verða jafn hissa og fólkið í stúkunni og Valsmenn ganga á lagið síðustu 20 mínúrnar og Adam Ægir Pálsson gerir sigurmarkið á 82.mínútu á móti sínum gömlu félögum í Víking. Brosmildari mann munið þið ekki sjá í viðtölum það sem eftir lifir sumars en Túfa leggur alvarleikan og klisjurnar til hliðar og verður léttur og skemmtilegur.

Fyrri spámenn:
Eggert Aron (5 réttir)
Þór Llorens (3 réttir)
Halldór Smári (2 réttir)
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 4 3 0 1 7 - 5 +2 9
2.    Vestri 4 2 1 1 4 - 2 +2 7
3.    KR 4 1 3 0 12 - 7 +5 6
4.    Víkingur R. 3 2 0 1 6 - 1 +5 6
5.    Stjarnan 3 2 0 1 5 - 4 +1 6
6.    Valur 3 1 2 0 7 - 5 +2 5
7.    ÍBV 3 1 1 1 3 - 3 0 4
8.    Afturelding 3 1 1 1 1 - 2 -1 4
9.    KA 4 1 1 2 6 - 11 -5 4
10.    Fram 3 1 0 2 5 - 6 -1 3
11.    ÍA 4 1 0 3 2 - 9 -7 3
12.    FH 4 0 1 3 5 - 8 -3 1
Athugasemdir
banner