Guehi til sölu - Everton hafnaði fyrirspurnum í Branthwaite - Wharton falur fyrir 70 milljónir
banner
   lau 27. september 2025 16:13
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: KR-ingar í slæmri stöðu eftir tap á Akranesi - Gummi Magg bjargaði stigi í Krikanum
Viktor Jónsson átti frábæran leik í fremstu víglínu hjá ÍA
Viktor Jónsson átti frábæran leik í fremstu víglínu hjá ÍA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR-ingar eru í vondum málum
KR-ingar eru í vondum málum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gummi Magg náði í stig fyrir Blika
Gummi Magg náði í stig fyrir Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mathias Rosenörn sá rautt undir lok leiks
Mathias Rosenörn sá rautt undir lok leiks
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skagamenn unnu frábæran 3-2 sigur á KR í fallbaráttuslag á Akranesi og blasir nú fall við stórveldinu úr Vesturbæ þegar þrjár umferðir eru eftir af Bestu deild karla. Ríkjandi meistarar Breiðabliks náðu að bjarga stigi undir lokin í 1-1 jafntefli gegn FH í Kaplakrika.

FH-ingar voru sprækir í fyrri hálfleiknum gegn Blikum. Þeir voru mun sprækari í fyrri hálfleiknum og fengu nokkur færi til að skora. Sigurður Bjartur Hallsson kom sér í dauðafæri strax í byrjun leiks, en sendi boltann í stað þess að skjóta þó enginn FH-ingur hafi verið með honum.

Böðvar Böðvarsson kom sér í annað dauðafæri fyrir FH-inga eftir sendingu frá Kjartani Kára Halldórssyni, en setti boltann himinhátt yfir markið.

Óli Valur Ómarsson átti besta færi Blika í fyrri hálfleiknum eftir sendingu frá Ágústi Orra Þorsteinssyni en Óli náði ekki að stýra boltanum á markið úr algeru dauðafæri.

Staðan í hálfleik markalaus, en FH-ingar komust í forystu þegar seinni hálfleikurinn var ellefu mínútna gamall. Baldur Kári Helgason kom boltanum inn á teiginn og var það Tómas Orri Róbertsson sem skaut óverjandi skoti í hornið.

Blikar fóru að sækja meira þegar leið á leikinn og dró til tíðinda á 88. mínútu er Guðmundur Magnússon jafnaði metin aðeins nokkrum mínútum eftir að hafa komið inn á.

Rétt eftir markið fékk Mathias Rosenörn, markvörður FH, að líta rauða spjaldið í kjölfarið. FH var búið með skiptingarnar og þurfti Sigurður Bjartur að klæða sig í markmannshanskana. Hann stóð sig vel á lokamínútunum og handsamaði allt sem kom að honum.

Lokatölur 1-1. Breiðablik er með 36 stig í 4. sæti á meðan FH er í 5. sæti með 32 stig.

Skagamenn unnu fallbaráttuslaginn gegn KR

ÍA vann KR, 3-2, í fallbaráttuslag á Akranesi eftir svakalegar lokamínútur.

Tvö lið sem eru með þeim stærstu í Íslandssögunni að mætast í fallbaráttuslag er eitthvað sem hljómar hálf súrrealískt, en þannig er staðan.

Leikurinn bauð upp á mikla ákefð og baráttu eins og við var að búast.

Skagamenn tóku forystuna á 36. mínútu. Jón Gísli Eyland Gíslason átti innkast á Hauk Andra Haraldsson sem setti boltann aftur út á Jón Gísla. Hann kom með lága fyrirgjöf á Marko Vardic sem sneri baki í markið og náði að hæla hann í netið.

KR-ingar fengu draumabyrjun á síðari hálfleiknum er vítaspyrna var dæmd á Árna Marinó Einarsson, markvörð Skagamanna. Dómurinn var kolrangur því Árni náði að bjarga frábærlega með tæklingu sinni, en KR-ingar kvörtuðu ekki.

Aron Sigurðarson skoraði af punktinum og jafnaði leikinn. Mikilvægt jöfnunarmark en undir lokin tókst Skagamönnum að gera út um leikinn á nokkrum mínútum.

Viktor Jónsson skoraði með skalla eftir hornspyrnu Jóns Gísla á 82. mínútu og tveimur mínútum síðar tryggði Gísli Laxdal Unnarsson sigurinn. Viktor slapp í gegn, fór framhjá Arnari Frey Ólafssyni áður en hann setti boltann á Gísla sem skoraði.

Aron Sig skoraði sárabótarmark þegar lítið var eftir af leiknum en lengra komust KR-ingar ekki.

Magnaður sigur Skagamanna sem eru nú fjórum stigum fyrir ofan fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir, en KR-ingar í næst neðsta sæti þremur stigum frá öruggu sæti. Allt stefnir í fall hjá KR, en vissulega margt sem á eftir að gerast í þessum þremur umferðum sem eftir eru.

Úrslit og markaskorarar:

ÍA 3 - 2 KR
1-0 Marko Vardic ('36 )
1-1 Aron Sigurðarson ('53 )
2-1 Viktor Jónsson ('82 )
3-1 Gísli Laxdal Unnarsson ('84 )
3-2 Aron Sigurðarson ('96 )
Lestu um leikinn

FH 1 - 1 Breiðablik
1-0 Tómas Orri Róbertsson ('56 )
1-1 Guðmundur Magnússon ('88 )
Rautt spjald: Mathias Brinch Rosenorn, FH ('89) Lestu um leikinn
Besta-deild karla - Efri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 26 16 6 4 56 - 31 +25 54
2.    Valur 25 13 5 7 57 - 40 +17 44
3.    Stjarnan 25 12 5 8 47 - 41 +6 41
4.    Breiðablik 26 10 9 7 43 - 40 +3 39
5.    FH 25 8 8 9 42 - 38 +4 32
6.    Fram 25 9 5 11 36 - 36 0 32
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 25 9 6 10 30 - 31 -1 33
2.    KA 25 9 6 10 36 - 45 -9 33
3.    ÍA 25 10 1 14 35 - 45 -10 31
4.    Vestri 25 8 4 13 24 - 38 -14 28
5.    Afturelding 25 6 8 11 35 - 44 -9 26
6.    KR 25 6 7 12 48 - 60 -12 25
Athugasemdir
banner