Man Utd ætlar að bjóða Calvert-Lewin samning - Al Nassr á eftir Rodrygo - Chelsea fylgist með stöðu Nwaneri
banner
   fim 26. júní 2025 16:36
Elvar Geir Magnússon
Mbappe ekki með í nótt
Mynd: EPA
Kylian Mbappé verður ekki í leikmannahópi Real Madrid sem mætir Red Bull Salzburg frá Austurríki eftir miðnætti í síðasta leik sínum í riðlakeppni HM félagsliða.

Franski framherjinn var lagður inn á sjúkrahús nýlega eftir að hafa fengið greiningu um magabólgu og á enn eftir að spila á mótinu. Hann er mættur út á æfingasvæðið en hefur misst vöðvamassa.

Mikill hiti í Bandaríkjunum flækir endurkomu hans og telja læknarnir of mikla áhættu fólgna í því að láta hann spila í kvöld.

„Ég var ánægður að sjá hann á æfingasvæðinu en þetta var fyrsti dagurinn sem hann fór í skóna sína og hljóp aðeins. Hann er ekki búinn að ná sér að fullu,“ segir Xabi Alonso, stjóri Real Madrid.

Klukkan 01:00 í nótt eru síðustu leikirnir í riðlakeppninni. Al Hilal spilar við Pachuca á meðan Salzburg spilar við Real Madrid í úrslitaleiknum um toppsætið í H-riðli. Bæði lið eru með 4 stig en Al Hilal er í þriðja sæti með 2 stig og á því enn möguleika á að komast áfram.

„Hann gæti verið tiltækur ef við komumst áfram. Hann er enn í bataferli en gæti spilað í útsláttarkeppninni," segir Alonso um Mbappe en jafntefli dugar í nótt til að tryggja Madrídarliðinu sæti í útsláttarkeppninni.
Athugasemdir
banner