Fjölmiðlar greina frá því að Tottenham sé búið að setja sig í samband við umboðsteymi Joao Palhinha, miðjumanns FC Bayern.
Tottenham hefur mikinn áhuga á að kaupa Palhinha sem fékk lítinn spiltíma á sínu fyrsta tímabili í þýska boltanum. Bayern keypti hann síðasta sumar frá Fulham og borgaði rúmlega 50 milljónir evra.
Palhinha náði sér ekki á strik í München og er talið að Þýskalandsmeistararnir séu tilbúnir til að selja hann fyrir 30 milljónir og tapa þannig 20 milljónum á skiptunum.
Hann byrjaði aðeins sex leiki með Bayern í þýsku deildinni og kom við sögu í einum leik á HM félagsliða. Hann spilaði um 1000 mínútur í heildina á sínu fyrsta tímabili undir stjórn Vincent Kompany.
Fulham og Inter hafa einnig sýnt leikmanninum áhuga en talið er að Tottenham sé líklegasti áfangastaðurinn.
Palhinha er 30 ára miðjumaður. Hann er mikilvægur partur af landsliði Portúgals og var algjör lykilmaður á miðjunni hjá Fulham.
Mögulegt er að Tottenham reyni að selja Yves Bissouma til að fjármagna kaupin á Palhinha.
Athugasemdir