
Bjarni Jóhannsson þjálfari Selfoss svaraði spurningum eftir fjögurra marka tap á Húsavík í Lengjudeildinni í dag.
Selfyssingar eru aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið sem stendur, með 13 stig eftir 14 umferðir.
„Við byrjuðum ágætlega og héldum boltanum vel en áttum svo tvær arfaslakar sendingar sem sköpuðu þessi mörk fyrir þá. Annað var það nú ekki í fyrri hálfleik og síðan fór allt á versta veg í seinni hálfleik," sagði Bjarni Jó.
„Við misstum hafsentinn okkar útaf í smá meiðsli í hálfleik og fengum svo annað gula spjaldið á hægri bakvörðinn okkar. Fyrra gula spjaldið var mjög ósanngjarnt og þetta var einhvern veginn bara vondur dagur fyrir okkur. Við vorum bæði sjálfum okkur verstir og ýmsir dómar féllu okkur ekki í hag í þessum leik.
„Mér fannst þetta mjög soft að reka hann útaf sérstaklega þegar búið var að marg, marg, margbrjóta á okkar manni. Hann kannski missti höndina í hálsinn á honum eða eitthvað álíka í þessu klafsi. Mér fannst dómarnir ekki falla með okkur."
Bjarni er spenntur fyrir baráttunni sem er framundan á Selfossi og talaði um að hver einasti leikur gegn liðum í neðri hluta deildarinnar sé úrslitaleikur.
Selfoss tekur á móti toppliði ÍR í næstu umferð.
Athugasemdir