Garnacho á leið til Chelsea - Milan hefur áhuga á Nkunku og Akanji - Newcastle gerir nýtt tilboð í Larsen
   fim 28. ágúst 2025 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Sannfærandi sigrar hjá FH og Víkingi
Kvenaboltinn
FH hefur verið spútnik lið tímabilsins í Bestu deildinni.
FH hefur verið spútnik lið tímabilsins í Bestu deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Thelma Lóa skoraði fyrsta markið gegn Þrótti.
Thelma Lóa skoraði fyrsta markið gegn Þrótti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ashley Clark skoraði og lagði upp.
Ashley Clark skoraði og lagði upp.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Linda Líf átti magnaða innkomu af bekknum.
Linda Líf átti magnaða innkomu af bekknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru tveir leikir fram í Bestu deild kvenna í dag þar sem FH lagði Þrótt R. örugglega að velli í toppbaráttunni á meðan Víkingur R. vann frábæran útisigur á Tindastóli í fallbaráttunni.

FH 3 - 0 Þróttur R.
1-0 Thelma Lóa Hermannsdóttir ('43)
2-0 Katla María Þórðardóttir ('78)
3-0 Berglind Freyja Hlynsdóttir ('86)

Lestu um leikinn: FH 3 - 0 Þróttur R.

FH var sterkara liðið allan leikinn gegn Þrótti og fékk mikið af góðum færum áður en Thelma Lóa Hermannsdóttir kom boltanum loks í netið á 43. mínútu til að taka forystuna.

Thelma gerði virkilega vel að taka á móti langri sendingu frá Örnu Eiríksdóttur og klára með laglegu marki með utanfótarskoti.

Leikurinn jafnaðist út í síðari hálfleik en heimakonur gerðu út um viðureignina á lokakaflanum. Katla María Þórðardóttir skallaði fyrst hornspyrnu frá Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur í netið áður en Berglind Freyja Hlynsdóttir innsiglaði sigurinn.

Lokatölur sannfærandi 3-0 sigur FH sem er í öðru sæti Bestu deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Breiðabliks sem virðist óstöðvandi um þessar mundir.

Þróttur er áfram í þriðja sæti, núna sex stigum á eftir FH.

Tindastóll 1 - 5 Víkingur R.
0-1 Bergdís Sveinsdóttir ('7)
0-2 Ashley Jordan Clark ('43)
1-2 Birgitta Rún Finnbogadóttir ('54)
1-3 Linda Líf Boama ('61)
1-4 Shaina Faiena Ashouri ('80)
1-5 Linda Líf Boama ('95)

Lestu um leikinn: Tindastóll 1 - 5 Víkingur R.

Á Sauðárkróki voru gestirnir úr Víkinni sterkari aðilinn og tóku forystuna snemma leiks, þegar Bergdís Sveinsdóttir fylgdi eigin skalla eftir með marki.

Það var lítið að frétta í fyrri hálfleiknum en gestirnir voru sterkari og tvöfaldaði Ashley Clark forystuna skömmu fyrir leikhlé. Bergdís, sem skoraði fyrra markið, fær skráða stoðsendingu á sig eftir að hafa fengið fyrirgjöf í sig áður en boltinn barst til Ashley.

Tindastóll byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og minnkaði muninn á 54. mínútu eftir slæm varnarmistök. Birgitta Rún Finnbogadóttir nýtti þau til að skora snyrtilegt mark og átti skot hárfínt framhjá skömmu síðar. Þar hefði Birgitta Rún getað jafnað metin í þessum áhugaverða fallbaráttuslag, en þess í stað tvöfölduðu gestirnir forystuna á ný.

Linda Líf Boama refsaði Stólunum eftir slakan varnarleik heimakvenna. Hún skoraði auðvelt mark eftir frábæra sendingu innfyrir vörnina.

Sauðkrækingar áttu engin svör gegn Víkingum og þá sérstaklega Lindu Líf, sem átti eftir að leggja upp fjórða mark gestanna og skora það fimmta sjálf. Lokatölur 1-5 fyrir Víking.

Linda Líf byrjaði ekki leikinn en fékk að koma inn í seinni hálfleik og réði að lokum úrslitum.

Víkingur klifrar uppfyrir Tindastól með þessum sigri. Stólarnir sitja því eftir í fallsæti með 14 stig eftir 15 umferðir, á meðan Víkingur fer upp um þrjú sæti og í efri hlutann í ótrúlega jafnri fallbaráttu.

Nú eru aðeins þrjár umferðir í tvískiptingu deildarinnar og á Víkingur enn möguleika á því að enda í efri hlutanum og sleppa þannig alfarið við fallbaráttuna á lokahnykknum.
Athugasemdir
banner