„Ég kom aftur til Íslands fyrir tíu dögum. Ég hef verið að fara á marga leiki í Bestu karla og kvenna. Það er frábært að fara á leikina og sjá þá frá öðru sjónarhorni; það minnir þig á það af hverju þú elskar fótbolta," segir þjálfarinn John Andrews í viðtali við Fótbolta.net.
John yfirgaf Víking fyrir um tveimur mánuðum síðan eftir að hafa stýrt Víkingi í um fimm og hálft ár.
John yfirgaf Víking fyrir um tveimur mánuðum síðan eftir að hafa stýrt Víkingi í um fimm og hálft ár.
„Fólk hefur spurt mig hvað ég sé að gera hérna þegar ég mæti á leikina. Ég segi við það að ég búi hérna og ég eigi íbúð í Mosfellsbæ. Ég bý hérna, spila golf og fer á eins marga leiki og ég get," segir John.
Gæti ekki verið stoltari
John tók við Víkingum í október 2019 þegar félagið hafði nýhætt samstarfi við HK. Víkingur fór þá í mótun á kvennaliði sínu en undir stjórn John byggði Víkingur upp sterkt lið sem komst upp í Bestu deildina, varð bikarmeistari og endaði svo í þriðja sæti efstu deildar í fyrra.
„Þegar ég lít til baka á tímann með Víkingi þá náðum við ótrúlega góðum árangri," segir John.
„Ég kom þarna inn í október 2019 og það var ekkert lið þarna á þeim tíma. Ég held að markmiðið hjá félaginu 2020 hafi verið að falla ekki niður í 2. deild. Það var ekki sagt beint við mig þar sem ég var alltaf að horfa í það hvernig ég gæti komið þessu stóra félagi í Bestu deildina. Að ná svo að enda í þriðja sæti í Bestu deildinni og að vinna bikarmeistaratitil var ótrúlegt," segir John.
Víkingar lentu í vandræðum í sumar og voru í fallsæti þegar John var látinn taka pokann sinn. Nú horfir aðeins til betri vegar en liðið er samt sem áður enn í fallsæti.
„Við vorum með níu ökklameiðsli í mars á þessu ári og leikmenn voru frá í margar vikur. Svo voru þrjár stelpur óléttar. Ég sagði við stjórnina að þessar stelpur væru að koma til baka og Víkingur yrði á svo góðum stað eftir EM pásuna. Því miður er ég ekki þarna að stýra liðinu en ég óska þeim alls hins besta. Ég held að Víkingur verði ekki á meðal fjögurra neðstu, þær komast upp úr því."
„Ég gæti ekki verið stoltari af því sem við afrekuðum. Ég er sorgmæddur yfir því hvernig það endaði en það er gamalt máltæki sem segir 'ekki vera vonsvikinn að þetta sé búið, vertu glaður að þetta gerðist'. Það á mjög vel við um tíma minn hjá Víkingi. Núna er það bara næsta verkefni," segir John.
Auðvitað erfitt
Hann segir að það hafi auðvitað verið erfitt að heyra að hann fengi ekki að halda áfram með liðið og það tók hann tíma að jafna sig.
„Það var auðvitað erfitt að heyra að ég fengi ekki að halda áfram með liðið. Ef þú horfir á tíma minn með Aftureldingu áður en ég tók við Víkingi þá vorum við með lítið fjármagn en héldum okkur uppi á hverju ári. Ef þú horfir á bikarúrslitaleikinn með Víkingi, þá gaf enginn okkur séns í þeim leik. Mér finnst það styrkleiki minn sem þjálfari að þegar fólk heldur að eitthvað sé ómögulegt, þá get ég komið liðinu úr vandræðum. Við sjáum hvað Einar og Jón Páll eru að gera núna og ég er viss um að ég hefði gert það sama ef ég hefði haldið áfram með liðið," segir John.
„Það voru mikil vonbrigði að yfirgefa félagið. Flestir þjálfarar fá kannski 1-2 ár en ég var þarna í fimm og hálft ár sem var ótrúlegt. Ég get í raun bara verið þakklátur en það var svekkjandi að fara. Það tók mig tvær vikur heima á Írlandi að hreinsa hausinn. Ég leit yfir allt sem gerðist og hvernig það var gert og mér leið vel eftir það. Svo ferðu að læra hlutina upp á nýtt og hugsa um að komast aftur til vinnu. Það er spennandi núna."
John myndaði sterk tengsl við leikmennina í Víkingi yfir tíma sinn hjá félaginu og saknar að vinna með þeim.
„Sakna ég leikmennina, já. Ég sakna persónuleikana. Við komum mörgum ungum leikmönnum upp í liðið sem hafa vaxið úr grasi núna. Ég vona að ég hafi haft jákvæð áhrif á þær. Ég vona að þegar ég heimsæki Víking aftur þá verði tekið vel á móti mér og við getum litið til baka á góðu tímana. Mér þykir mjög vænt um leikmennina og það er flott að sjá þá standa sig vel."
Mun ekki segja það
Hefðir þú náð að halda Víkingi uppi ef þú hefðir fengið að stýra liðinu áfram?
„Ég er með mikið sjálfstraust en ég mun ekki segja að Víkingur hefði bókað haldið sér uppi ef ég hefði verið áfram þjálfari liðsins," segir John en af hverju hefur Víkingur lent í vandræðum í sumar?
„Við lentum í vandræðum út af meiðslum og svo urðu þrjár stelpur í liðinu óléttar. Þær þrjár (Selma Dögg Björgvinsdóttir, Erna Guðrún Magnúsdóttir og Birta Guðlaugsdóttir) eru þrjár af bestu leikmönnum liðsins og deildarinnar líka. Öll þessi ökklameiðsli og þannig voru að trufla okkur og það fannst lítill taktur einhvern veginn."
„Það væri rangt af mér að segja að við hefðum bókað haldið okkur uppi ef ég hefði verið áfram en með hópinn sem Víkingur er með og hvernig deildin er að spilast þá get ég enn séð að Víkingur endi í topp fjórum eða topp fimm. Ég verð stoltur af þeim sama hvað gerist. Undirbúningstímabilið var mjög erfitt út af meiðslum og ég er mjög stoltur af því að þær séu enn að berjast," segir John.
Hvað næst?
John er núna byrjaður að skoða næstu skref en hans helsta ósk er að fá alvöru áskorun.
„Ég er bara að leita að áskorun," segir John. „Ég er manneskja sem þrífst á áskorun. Ég var með langtímahugsjón þegar ég tók við Víkingi að vinna eitthvað og komast upp í Bestu deildina. Við gerðum það. Líka þegar ég var í Mosfellsbæ, þá var langtímamarkmið að komast upp í Lengjudeildina. Allan minn feril hef ég leitað að áskorunum og að hjálpa liðum að bæta sig. Ég er að búa til glærukynningar og að læra ýmislegt tengt fótbolta. Ég er að undirbúa mig fyrir það þegar eitthvað kemur upp þannig að ég sé tilbúinn. Ég hef líka horft á mikið af leikjum í karlaboltanum," segir John.
„Ég er að leita að spennandi verkefni sem væri stór áskorun fyrir mig. Ég vinn alltaf best þegar það er áskorun. Fólk hefur gleymt því að ég er á landinu. Þegar ég fór frá Víkingi héldu allir að ég myndi bara fara aftur til Írlands. Það gleymdist að ég á íbúð í Mosfellsbæ. Ég er hérna og er tilbúinn ef einhver hringir."
Írskur Íslendingur
John, sem er 46 ára, kom fyrst hingað til lands 2008 og spilaði með Aftureldingu. Hann spilaði í Mosfellsbæ í fimm tímabil og þjálfaði með því Hvíta riddarann og kvennalið Aftureldingar. Hann tók svo við kvennaliði Völsungs í tvö sumur áður en hann tók til starfa hjá Víkingi.
Hann segist vera orðinn írskur Íslendingur.
„Það hafa komið upp möguleikar erlendis síðustu tvo eða þrjá daga sem gætu verið áhugaverðir. En það er partur af mér sem elskar þennan stað, Ísland. Það er alltaf eitthvað sem togar mig til baka og einhver ástæða fyrir því að ég get ekki farið. Ég get ekki sagt að ég ætli mér að vera á Íslandi út ævina en ég get sagt að ég keypti íbúð hérna og elska að vera hér. Ef rétta tækifærið kemur upp þá er ég meira en til í að vera hér á landi áfram. Ég er ágætur í tungumálinu meira að segja."
„Ég skoða það sem kemur upp en ég er ánægður á Íslandi og hef eignast góða vini hér. Ég vona að fólkið á Íslandi kunni vel við mig. Þetta er heimili mitt. Ef eitthvað kemur upp erlendis þá þarf ég að fara frá heimili mínu. Ég er írskur Íslendingur," segir John sem er opinn fyrir flestöllu.
„Ég er til í að starfa bæði karla- og kvennaboltanum. Ég var í hlaðvarpi um daginn þar sem ég sagði að á þjálfararéttindum mínum stendur 'Pro Licence þjálfari' en ekki 'Pro Licence karlaþjálfari' eða 'Pro Licence kvennaþjálfari'. Ég þarf bara áskorun og það skiptir ekki máli hvort það sé í karla- eða kvennaboltanum, eða í yngri flokkum jafnvel. Ég er ástfanginn af fótbolta og mér er sama hvort ég verði aðstoðarþjálfari, ég er bara ástfanginn af leiknum," sagði hann að lokum.
Athugasemdir