Þrír þjálfarar eru á lista Manchester United til að taka við af portúgalska stjóranum Ruben Amorim ef félagið ákveður að reka hann úr starfi. Þetta segja blaðamennirnir Alex Crooks og Ben Jacobs.
United hefur aðeins unnið níu af 33 deildarleikjum sínum síðan Amorim tók við keflinu af Erik ten Hag.
Félagið er alvarlega að íhuga að gera breytingar á þjálfarateyminu á næstu vikum og er talið líklegast að þær breytingar verði gerðar í næsta landsleikjahléi.
Gareth Southgate, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, er talinn líklegur kostur, en heimildir Crooks og Jacobs segja að Sir Jim Ratcliffe, hluteigandi í Man Utd, hafi verið í sambandi við Southgate síðustu vikur.
Englendingurinn náði mögnuðum árangri með enska landsliðið og fór tvisvar í úrslit Evrópumótsins ásamt því að komast í undanúrslit HM 2018.
Man Utd horfði til hans á síðasta ári áður en það réði Amorim til starfa, en þá var Southgate ekki reiðubúinn að snúa aftur í félagsliðafótbolta.
Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, er einnig á þessum þriggja manna lista United ásamt Andoni Iraola hjá Bournemouth.
Athugasemdir