Liverpool er búið að staðfesta að samkomulag hefur náðst við PSV Eindhoven um kaupverð á hollenska framherjanum Cody Gakpo.
Gakpo er fjölhæfur framherji sem er vinstri kantmaður að upplagi en getur einnig leikið sem fremsti sóknarmaður og á hægri kanti.
Gakpo er 23 ára gamall og hefur verið einn af bestu leikmönnum hollensku deildarinnar undanfarin misseri. Hann var eftirsóttur af fleiri stórveldum í Evrópu og eru stjórnendur Liverpool gríðarlega sáttir með að hafa tekist að ganga frá kaupunum fyrir opnun janúargluggans.
Gakpo er staddur í Liverpool þessa dagana þar sem hann gengst undir læknisskoðun og skrifar undir samning.
Hann er hollenskur landsliðsmaður og skoraði í öllum leikjum Hollands í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Katar. Hann á í heildina 6 mörk í 14 leikjum með landsliðinu og 55 mörk í 159 leikjum með PSV.
???? ???? pic.twitter.com/dK6Deaq7kE
— Liverpool FC (@LFC) December 28, 2022