Ástbjörn Þórðarson og Gyrðir Hrafn Guðbrandsson, leikmenn FH, hafa náð samkomulagi um að ganga í raðir KR. Frá þessu greinir Vísir í dag.
Samningar þeirra beggja renna út að þessu tímabili loknu og munu þeir þá ganga í raðir KR. Þó er Vesturbæjarstórveldið sagt ætla að reyna að fá þá núna áður en yfirstandandi félagaskiptagluggi lokar.
Bæði Ástbjörn og Gyðir eru uppaldir í KR en hafa leikið með FH síðustu árin. Báðir hafa þeir átt fínt sumar í Kaplakrika núna.
Það var fyrst sagt frá því hér á Fótbolta.net í síðustu viku að Ástbjörn og Gyrðir væru á óskalista KR.
Sú slúðursaga hefur verið á kreiki að KR sé að reyna sannfæra FH um að hleypa þeim strax í KR í skiptum fyrir Kristján Flóka Finnbogason.
KR er nú þegar búið að semja við Alexander Helga Sigurðarson um að koma eftir tímabilið frá Breiðabliki en liðið er sem stendur í miklu veseni, í níunda sæti Bestu deildarinnar með 14 stig. Liðið er tveimur stigum frá fallsæti.
Athugasemdir