
Gianni Infantino, forseti FIFA, fylgist grannt með gangi mála á heimsmeistaramótinu sem er í fullu fjöri í Katar.
FIFA og Infantino hafa fengið mikla gagnrýni fyrir þetta mót en einn kosturinn við að hafa HM í Katar eru stuttar vegalengdir á milli leikvanga.
Leikmenn og áhorfendur þurfa aldrei að ferðast lengi á milli staða og getur sami áhorfandinn mætt á fjóra mismunandi leiki samdægurs kjósi hann að gera það.
Infantino horfði á tvo leiki á sama tíma í dag, þar sem hann horfði á Holland taka forystuna gegn Katar áður en hann skipti í hálfleik til að horfa á Senegal sigra gegn Ekvador.
Á viðureign Senegal gegn Ekvador var einnig hress stuðningsmaður Marokkó sem hefur vakið athygli á sér fyrir að taka virkan þátt í dönsum stuðningsmanna Senegal sem voru litskrúðugir og fullir af orku.