Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   fim 29. desember 2022 07:20
Ívan Guðjón Baldursson
Guardiola: Haaland ekki uppá sitt besta
Mynd: EPA

Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var ánægður eftir flottan sigur gegn Leeds United í gærkvöldi.


Guardiola svaraði spurningum að leikslokum og ræddi um norsku markavélina Erling Braut Haaland sem skoraði tvennu í 1-3 sigri og er kominn með 20 mörk í 14 úrvalsdeildarleikjum.

Haaland viðurkenndi að leikslokum að hann hefði getað skorað fimm mörk í leiknum en Illan Meslier stóð vaktina vel á milli stanga Leeds þrátt fyrir að fá þrjú mörk á sig.

„Hann er ekki uppá sitt besta, hann er enn að jafna sig eftir meiðslin sem hann hlaut gegn Dortmund í október. Hann var í betra standi á upphafi tímabils en þarf fleiri mínútur núna. Því fleiri mínútur sem hann fær, því betri mun hann verða," sagði Guardiola.

„Á upphafi tímabils þá hefði hann nýtt færin sem fóru forgörðum gegn Liverpool og Leeds. Þetta er bara smáatriði því hann er ótrúlega góður fótboltamaður. Hann er alltaf í baráttunni um boltann því hann er fáránlega góður að staðsetja sig. Það er eins og hann viti alltaf nákvæmlega hvar boltinn er að fara að lenda."

Guardiola hefur miklar mætur á Haaland, ekki síst vegna þess hversu hógvær hann er og vegna hans frábæra persónuleika.

„Við erum svo ánægðir með persónuleikann hans. Hann er ótrúlega duglegur einstaklingur, gífurlega vinnusamur á æfingum og virkilega mikill fagmaður."


Athugasemdir
banner
banner
banner