Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar, hefur verið frá keppni síðan í lok júní í fyrra þegar hann meiddist illa á hné gegn Fylki.
Þórarinn sleit krossband í hægra hné auk þess sem áverkar urðu á liðböndum.
Þórarinn sleit krossband í hægra hné auk þess sem áverkar urðu á liðböndum.
„Endurhæfingin hefur gengið vel hjá mér. Dóri sjúkraþjálfari stjórnar eins og herforingi. Staðan í dag er þannig að það er eitthvað í land varðandi að vera leikfær. Tíminn leiðir það í ljós," sagði Þórarinn Ingi við Fótbolta.net í dag.
Stjarnan átti að mæta Fylki í fyrsta leik Pepsi Max-deildarinnar 24. apríl en nú er ljóst að mótið frestast um einhverjar vikur vegna kórónuveirunnar. Þórarinn á því meiri möguleika á að ná fleiri leikjum í sumar.
„Það er reyndar mér í hag að mótið frestist aðeins en þetta er engin óskastaða. Ég kemst minna í tækjasalinn en áður og hjólið heima fer að vera vel þreytt. Við skulum bara vona að mótið hefjist eins fljótt og hægt er," sagði Þórarinn Ingi að lokum.
Athugasemdir