Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   mið 30. apríl 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Næst er að byrja og skora í Bestu - „Þægilegt að hafa hann með sér á miðjunni"
Alexander Rafn.
Alexander Rafn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Breki hefur vakið athygli í upphafi móts.
Sigurður Breki hefur vakið athygli í upphafi móts.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi Rafn, faðir Alexanders.
Pálmi Rafn, faðir Alexanders.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexander Rafn Pálmason varð á síðasta ári yngsti leikmaður í sögu efstu deildar þegar hann kom inn á í leik með KR.

Hann var til viðtals hér á Fótbolti.net á dögunum eftir að hafa skorað þrennu í stærsta sigri KR í sögunni en KR lagði KÁ 11-0 í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Alexander var valinn besti leikmaður umferðarinnar í bikarnum.

Hann varð 15 ára í mánuðinum og segir að sitt næsta markmið sé að byrja leik í Bestu deildinni og koma sér á blað í efstu deild.

„Það var ákveðið sjokk að koma svona ungur inn í meistaraflokk út af því ég var nýbúinn að stíga upp úr 3. flokki í 2. flokk. Það kom því alveg á óvart," sagði Alexander Rafn.

Hann er sonur Pálma Rafns Pálmasonar og var spurður hvort hann hefði fengið hæfileikana þaðan.

„Amma hefur alltaf viljað meina að ég hafi fengið hæfileikana frá henni, en ég held að ég hafi fengið þá frá pabba. Það var mjög fínt að hafa hann sem þjálfara í fyrra, hann var líka búinn að þjálfa mig í 4. flokki þannig ég var með hann í 2-3 ár sem þjálfara. Það er mjög næs."

„Ég man ekki mikið eftir honum spila, þegar hann kom heim til Íslands spilaði hann held ég aftar á miðjunni en áður. Ég er framar, eins og hann var þegar hann var yngri. Það hlýtur eiginlega að vera að við séum líkir sem leikmenn."

„Ég myndi segja að ég sé skemmtilegur leikmaður, vonandi allavega, sé minn eigin leikmaður. Mér finnst ég lesa leikinn vel og kann að halda vel í boltann."


Mikilvægt að velja rétt
Hann hefur farið erlendis á reynslur til Danmerkur og Spánar.

„Ég er aðeins farinn að hugsa, það er kominn áhugi frá nokkrum félögum. Ég er heppinn að fá alveg langan tíma til að hugsa næsta skref, er ekki ennþá búinn að ákveða mig, en það eru nokkrir líklegir áfangastaðir. Það er mikilvægt að velja rétt," segir Alexander sem er stuðningsmaður Arsenal og væri til í að spila fyrir félagið í framtíðinni.

Þægilegt að hafa Sigurð Breka með sér á miðjunni
Hann var spurður út í Sigurð Breka Kárason sem hefur vakið athygli í byrjun mótsins. Sigurður er árinu eldri en Alexander.

„Það er geðveikt að spila með Sigga, hann hleypur eins og ég veit ekki hvað og er geðveikur á boltanum. Það er þægilegt að hafa hann með sér á miðjunni. Hann á 100% framtíðina fyrir sér."

„Það var skemmtilegt að sjá hann koma inn gegn Val. Við erum eiginlega búnir að vera saman í öllum liðum síðan í 4. flokki. Maður gat ekki verið annað en glaður fyrir hans hönd."


Geðveikt að spila fyrir Óskar Hrafn
„Við viljum vera skemmtilega liðið í þessari deild, spila skemmtilegan bolta og skora mörk. Það er geðveikt að spila fyrir Óskar Hrafn."

„Ég stefni á að byrja leik í deild, reyna komast inn í liðið, og kannski setj'ann líka í deildinni,"
sagði Alexander Rafn.

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.
Bestur í Mjólkurbikarnum: Gerði þrennu fyrir KR nýorðinn 15 ára
Athugasemdir
banner
banner