Arsenal með í kapphlaupinu um Ekitike - Mikill áhugi á McAtee - Man Utd tilbúið að selja Malacia
   mán 30. júní 2025 17:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óskar Borgþórs keyptur til Víkings (Staðfest)
Mynd: Víkingur
Mynd: Víkingur
Óskar Borgþórsson er orðinn leikmaður toppliðs Víkings í Bestu deildinni. Hann er keyptur frá norska B-deildar félaginu Sogndal þar sem hann hefur verið í tvö ár, en hann var keyptur þangað frá uppeldisfélaginu Fylki.

Hann skrifar undir samning við Víkings sem gildir út tímabilið 2028.

„Óskar er leikinn kantmaður með mikinn kraft og áræðni. Hann er leikinn, með frábæran skotfót og getur leyst fleiri stöður á vellinum. Óskar er gríðarlega spennandi leikmaður og við búumst við miklu af honum. Við teljum hann smellpassa í hópinn okkar og eins og sjá má á myndunum frá undirritun samningsins fylgir honum mikil gleði og hann er eitt stórt bros þessi gæi. Ég er hrikalega ánægður að fá hann í hópinn og hlakka til að sjá hann í þeim rauða og svarta. Takk," segir Kári Árnason sem er yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi.

Óskar var orðaður við Víking og Breiðablik áður en hann hélt til Sogndal er nú kominn til Víkings. Hann fær leikheimild 17. júlí og er því ekki gjaldgengur í 1. umferðinni í forkeppni Sambandsdeildarinnar, en má koma inn ef Víkingur fer áfram gegn FC Malisheva frá Kósovó.

Hann á að baki níu leiki fyrir U21 landsliðið og tvo fyrir U19. Óskar, sem verður 22 ára í næstu mánuði, er vinstri kantmaður en getur spilað fleiri stöður á vellinum.

Fyrsti leikur Óskars gæti verið gegn Val í Bestu deildinni þann 20. júlí.

Athugasemdir