
Það vakti mikla athygli núna á dögunum þegar Gunnar Einarsson og Ívar Ingimarsson voru látnir fara sem þjálfarar kvennaliðs KR.
KR eru nýliðar í Lengjudeildinni eftir að hafa komist upp úr 2. deild, en árangurinn í sumar hefur verið flottur og er Vesturbæjarfélagið um miðja deild sem stendur.
KR eru nýliðar í Lengjudeildinni eftir að hafa komist upp úr 2. deild, en árangurinn í sumar hefur verið flottur og er Vesturbæjarfélagið um miðja deild sem stendur.
Það er erfitt að sjá að árangurinn sé það sem veldur þessum þjálfaraskiptum þar sem hann hefur bara verið mjög fínn í sumar. Fótbolti.net hefur heyrt af því að einhverjir leikmenn hafi verið ósáttir við þjálfarana og samskiptin við þá, og þá hefur einnig heyrst að þjálfararnir hafi verið ósáttir við þau sem stjórna hjá félaginu og viljað meira til að taka liðið enn hærra.
Fótbolti.net hefur reynt að fá svör frá forráðamönnum KR en án árangurs. Vísað var í yfirlýsingu félagsins sem kom með þessum áhugaverðu tíðindum, en lítið kom fram í henni af hverju samstarfinu var slitið.
Gunnar Einarsson, fráfarandi þjálfari liðsins, vildi þá ekki tjá sig á þessum tímapunkti en hann óskar liðinu alls hins besta það sem eftir lifir tímabils.
Næsti leikur KR er gegn Fylki í Árbænum. Jamie Brassington, markvarðarþjálfari, mun stýra liðinu í þeim leik.
Yfirlýsing KR frá því fyrr í þessari viku
Stjórn knattspyrnudeildar KR hefur tekið ákvörðun um að gera breytingar á þjálfarateymi meistaraflokks kvenna.
Ákveðið hefur verið að ljúka samstarfi við þá Gunnar Einarsson og Ívar Ingimarsson, þjálfara liðsins. Stjórn knattspyrnudeildar þakkar þeim báðum fyrir samstarfið og þeirra framlag til uppbyggingar kvennaknattspyrnunnar í KR og óskar þeim velfarnaðar í komandi verkefnum.
Stjórnin hefur þegar hafið vinnu við að finna nýjan þjálfara til að leiða næstu skref í uppbyggingu kvennaknattspyrnunnar og mun tilkynna um ráðningu hans á næstunni. Jamie Brassington mun stýra liðinu út leiktíðina.
Athugasemdir