
Ólafur Pétursson er hættur sem markvarðarþjálfari kvennalandsliðsins. Hann tilkynnti þetta á Facebook í gærkvöldi.
Hann hefur starfað sem markvarðarþjálfari landsliðsins í tæp tólf ár og ætlar núna að láta gott heita.
Hann hefur starfað sem markvarðarþjálfari landsliðsins í tæp tólf ár og ætlar núna að láta gott heita.
„Þetta var ævintýri sem hófst í Laugardalnum í september 2013 og lauk í Thun í Sviss í júlí 2025. Landsleikirnir urðu 134 talsins," skrifar Ólafur sem hefur einnig starfað fyrir Breiðablik sem yfirþjálfari markmannsþjálfunar.
„Það er búið að vera mikill heiður að vinna með þessu ótrúlega magnaða liði öll þessi ár. Geggjað að fara þrisvar sinnum á lokamót EM sem er mögnuð upplifun. Að vera á stóra sviðinu, þjálfa og kljást við erfiða mótherja á háu getustigi hefur veitt mér mikla ánægju og gleði. Þú þarft að hafa fyrir hlutunum og undirbúa þig vel fyrir alla leiki. Þetta eru margar eftirminnilegar ferðir sem skilja eftir fullt af skemmtilegum minningum."
„Mig langar að þakka öllum þeim leikmönnum sem ég hef unnið með í gegnum tíðina. Allir þeir markmenn sem ég hef unnið með fá sérstakar þakkir. Þið eruð allar frábærar."
„Ég hef unnið með nokkrum frábærum og hæfileikaríkum þjálfarateymum á þessum tíma. Freyr, Jón Þór, Steini, Ási, Jeffsy, Tom, Hjalti, Dúna og Gunný takk kærlega fyrir frábært samstarf. Mig langar líka að þakka frábæru sjúkrateymi, liðsstjórum sem eru ómetanlegir og starfsfólki KSÍ fyrir frábært samstarf í gegnum tíðina. Að baki frábæru liði er frábær og samheldinn hópur fólks sem vinnur sína vinnu af mikilli fagmennsku og alúð," segir Óli.
Hann segist ganga stoltur frá borði.
„Þótt úrslitin hafi ekki verið eins og við ætluðum okkur í Sviss var ég mjög heppinn að vera með frábært og samheldið markvarðateymi með mér, þeim Cecilíu, Fanneyju og Telmu sem unnu gríðarlega vel saman. Þetta er mjög sterkt teymi sem á framtíðina fyrir sér. Einnig eru aðrir ungir og efnilegir markmenn að banka á dyrnar því má segja að framtíðin í markmannsmálum sé björt hér á landi."
„Þegar ég lít til baka yfir farinn veg horfi ég ánægður og glaður á mitt framlag yfir þennan tíma og geng stoltur frá borði," segir Óli og þakkar fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn.
Næsta verkefni landsliðsins er í október og verður væntanlega nýr markvarðarþjálfari mættur í teymið þá. Þorsteinn Halldórsson kemur til með að vera áfram þjálfari liðsins.
Athugasemdir