Vestri hefur fengið vængmanninn Johannes Selvén frá Utsiktens BK í Svíþjóð. Utsiktens spilar í B-deildinni (Superettan) og mun Selvén gera þriggja ára samning samkvæmt tilkynningu frá Ísafirði.
Selvén, sem er 22 ára sænskur leikmaður, var á láni hjá Vestra í fyrra fram til byrjun júlí frá OB Odense í Danmörku.
Hann hefur verið á mála hjá IFK Gautaborg og OB. Hann hefur einnig leikið tvo leiki fyrir U-20 ára landslið Svíþjóðar.
„Með tilkomu Johannes Selvén fáum við tæknilega góðan leikmann sem þekkir vel til leikmannahópsins. Johannes er væntanlegur til Ísafjarðar á föstudagskvöld og ætti að vera tiltækur fyrir leikinn gegn Aftureldingu á miðvikudaginn. Við bjóðum Johannes hjartanlega velkominn! Áfram Vestri," segir í tilkynningu Vestra.
Á síðasta ári leik Selvén tíu leiki fyrir Vestra í Bestu deildinni og skoraði eitt mark.
Liðið er í sjötta sæti Bestu deildarinnar á þessu tímabili eftir sextán umferðir og þá mun liðið leika til úrslita gegn Val í Mjólkurbikarnum þann 22. ágúst.
Athugasemdir