Alexander Isak, sóknarmaður Newcastle United á Englandi, æfir þessa dagana á æfingasvæði spænska félagsins Real Sociedad á meðan framtíð hans liggur í lausu lofti.
AS segir að Isak hafi flogið frá Bretlandseyjum til Spánar stuttu eftir að hann tjáði Newcastle um áform sín um að fara í annað félag í sumar.
Hann nýtir sér aðstöðuna hjá sínum gömlu félögum í Real Sociedad í Zubieta.
Íslenski landsliðsmaðurinn Orri Steinn Óskarsson er á mála hjá Sociedad og lenti aftur á Spáni á dögunum eftir að hafa verið í æfingaferð í Japan og hefur hann eflaust rekist á Isak á æfingasvæðinu.
Liverpool er að undirbúa risatilboð í Isak. Talið er að það muni nema um 120 milljónum punda en Newcastle er sagt vilja 150 milljónir.
Samkvæmt Keith Downie hjá Sky Sports munu félögin mætast á miðri leið í viðræðunum og að kaupverðið muni nema um 135 milljónum punda sem myndi slá metið í ensku úrvalsdeildinni.
Craig Hope hjá Daily Mail heldur því fram að Newcastle muni ekki selja Isak nema það nái að kaupa toppframherja í stað hans, en við munum auðvitað fylgjast náið með framvindu mála.
Athugasemdir