Tottenham 2 - 1 Manchester City
1-0 Timo Werner ('5 )
2-0 Pape Matar Sarr ('25 )
2-1 Matheus Nunes ('45 )
1-0 Timo Werner ('5 )
2-0 Pape Matar Sarr ('25 )
2-1 Matheus Nunes ('45 )
Tottenham gerði sér lítið fyrir og sló Englandsmeistara Manchester City úr leik í 16-liða úrslitum enska deildabikarsins í Lundúnum í kvöld en lokatölur urðu 2-1 fyrir heimamönnum.
Leikurinn hófst á því að þungu fargi var létt af Timo Werner sem hafði ekki skorað á tímabilinu.
Dejan Kulusevski kom með bolta inn á teiginn á Werner sem gerði frábærlega í að afgreiða boltann í netið.
Byrjun Tottenham var frábær og hélt liðið áfram að byggja ofan á það. Um tuttugu mínútum síðar bætti Pape Matar Sarr við öðru marki með laglegu skoti fyrir utan teig.
Kulusevski tók hornspyrnuna stutt, fékk boltann aftur og kom honum út á Sarr. Hann tók skotið í fyrsta á nærstöngina og boltinn inn, en það mátti alveg setja spurningarmerki við Stefan Ortega í markinu sem hefði líklega átt að verja skotið.
Gestirnir frá Manchester unnu sig betur inn í leikinn og fóru að þrýsta á Tottenham. Liðið fékk nokkur færi og nýtti eitt þeirra undir lok hálfleiksins.
Savinho keyrði hægra megin inn í teiginn og kom með háan bolta yfir alla vörnina og á fjær þar sem Matheus Nunes var einn og óvaldaður. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina og setti boltann í fyrsta í netið.
Englandsmeistararnir reyndu hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn en vörn Tottenham hélt vel. Nico O'Reilly komst nálægt því undir lokin en Yves Bissouma varði tilraun hans á marklínu.
Tottenham er síðasta liðið til að komast í 8-liða úrslit en Man City er úr leik. Drátturinn hefst eftir skamma stund.
Athugasemdir