Sóknarmaðurinn Mario Balotelli neitar því að hafa misst af æfingu Brescia í dag.
                
                
                                    Miklar vonir voru bundnar við Balotelli hjá Brescia þegar samið var við hann til eins árs í fyrra, en hann hefur brugðist og er Brescia í neðsta sæti ítölsku deildarinnar. Hann hefur á þessari leiktíð skorað fimm mörk í 19 leikjum.
Massimo Cellino, forseti Brescia, hefur gagnrýnt Balotelli opinberlega í fjölmiðlum fyrir það til dæmis að mæta ekki á æfingu síðasta þriðjudag. Hann segir að mistök voru gerð þegar samið var við Balotelli. Svo í dag voru fréttir af því ítölskum fjölmiðlum að Balotelli hefði einnig misst af æfingu í dag.
Balotelli var þá nóg boðið og tjáði sig á samfélagsmiðlum. „Hvernig getið þið skrifað að ég sé ekki að æfa? Það mæta fjölmiðlamenn á æfingarnar með myndavélar. Ég mæti á tvær æfingar á dag, á nánast hverjum degi. Ég trúi því ekki að ég sé ósýnilegur fyrir myndavélunum," skrifar Balotelli, en líklegt er að hann sé á förum frá Brescia.
Þess má geta að landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason er liðsfélagi Balotelli hjá Brescia.
Ítalska úrvalsdeildin á að byrja aftur í næsta mánuði eftir langt hlé vegna kórónuveirufaraldursins.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
         
                    
        
         
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                
