Dalvík/Reynir og ÍR skildu jöfn á Dalvík í Lengjudeildinni í kvöld í fjörugum leik. Fótbolti.net ræddi við Árna Frey Guðnason þjálfara ÍR eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Dalvík/Reynir 1 - 1 ÍR
„Við byrjuðum mjög illa og svo fá þeir rautt spjald eftir tíu mínútur, við erum einum fleiri í 60-70 mínútur áður en Sæmi lætur reka sig útaf. Það er svekkjandi að hafa ekki náð forystunni, þeir skora úr víti og við náum að jafna í lokin sem er gott," sagði Árni Freyr.
Nikola Kristinn Stojanovic leikmaður Dalvíkur/Reynis fékk að líta rauða spjaldið snemma leiks og Sæmundur Sven A Schepsky, leikmaður ÍR, fékk rautt spjald þegar um stundafjórðungur var til loka venjulegs leiktíma.
„Ég sá fyrra rauða spjaldið mjög vel, það var beint fyrir framan okkur. Hann var óheppinn, fer með sólann rétt undir hnéið á honum seem ég held að sé rautt spjald," sagði Árni um brottrekstur Nikola.
„Það er 100% rautt spjald. Ef hann slær til hans eins og dómarinn segir. Ég sá það ekki því boltinn var einhvers staðar annars staðar. Hann dæmdi rautt og það verður bara að vera þannig," sagði Árni um brottrekstur Sæmundar.
ÍR-ingar sóttu í sig veðrið þeegar Sæmundur var rekinn af velli.
„Mér fannst það svolítið skrítið því mér fannst við vera slakastir rétt áður en við fáum rautt og eftir rauða spjaldið fáum við smá kraft og fengum svo mörg færi í lokin til að klára þennan leik að það er hálf hlægilegt," sagði Árni Freyr.