Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 31. ágúst 2021 16:00
Hafliði Breiðfjörð
Arnar Viðars: Stærsti stormur sem fótboltaþjóð hefur lent í
Icelandair
Arnar á æfingu Íslands í Laugardalnum í dag.
Arnar á æfingu Íslands í Laugardalnum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingunni í dag.
Frá æfingunni í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar setur upp æfinguna í dag.
Arnar setur upp æfinguna í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingunni í dag.
Frá æfingunni í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari Íslands sat fyrir svörum fjölmiðlamanna í dag þar sem hann ræddi landsliðið og málefni síðustu dag þar sem upp hafa komið alvarleg kynferðisbrot leikmanna landsliðsins sem eru ekki í hópnum í dag.

Á fréttamannafundinum sagði hann að Ísland væri statt í stærsta stormi sem knattspyrnusamband hafi lent í, einungis tvívegis áður hafi stjórn knattspyrnusambands sagt af sér á einu bretti, vegna stríðs í Bosníu og fjármálakrísu í Grikklandi.

„Það er ekkert launungarmál að þetta er búið að vera mjög erfitt. Mitt verkefni og starfsfólksins er að halda utan um þetta svo náum utan um hópinn og náum leikmönnunum í rétt hugarfar fyrir þessa þrjá mikilvægu leiki. Ég ætla ekki að reyna að útskýra það meira eða eyða orðum í það en þetta er mjög erfitt fyrir alla," sagði Arnar Þór á fréttamannafundinum.

Hann var spurður út í andrúmsloftið í leikmannahópnum og þá sér í lagi hjá eldri leikmönnum nú þegar allir leikmenn í hópnum liggja undir grun um ofbeldisverk eftir fréttir síðustu daga.

„Sem betur fer eru þessir leikmenn mjög reyndir og hafa gengið í gegnum mjög mikið á sínum ferli og náð ótrúlegum árangri. Til að ná árangri þarf að geta einbeitt sér að þeim hlutum sem menn hafa stjórn á og það er grunnurinn á að geta staðið sig sem íþróttamaður."

„Ég er með 39 manna hóp í búbblu inni á hóteli, ekki bara leikenn. Þau hafa ekkert gert af sér og það er mjög erfitt fyrir leikmenn sem liggja ósjálfkrafa undir grun um eitthvað sem þeir hafa ekki gert. Það er mjög erfitt fyrir alla að finna réttu orðin og segja eitthvað rétt. Það er einhvern veginn alltaf allt rangt. Það þýðir ekki að okkut sé alveg sama og mikilvægt að vita að það er erfitt fyrir leikmennina að sitja fyrir svörum því þeir eru hræddir við að segja eitthvað rangt."

„Ég sagði við Eið Smára á sunnudagskvöldið þegar mikið var að gerast að við mættum búast við að leikmenn sem meiðast í leik á sunnudegi hefðu ekki kjarkt il að láta okkur vita að þeir væru meiddir. Við erum komnir þangað og það er mjög slæmt og erfitt."


Næst var Arnar Þór spurður út í stöðuna á hópnum og svo andlega stöðu í hópnum.

„Staðan á hópnum gagnvart meiðslum er í fínu lagi. Við erum á góðu róli þar. Leikmennirnir hafa fengið leyfi hjá mér, Eiði og staffinu að þeir þurfa ekki að vera í 100% fókus á leikinn við Rúmeníu akkúrat núna. Ef ég bæði um það væri ég ekki góður þjálfari og ekki góð persóna. Menn verða að gera þetta á réttum forsendum og fá að vinna okkar vinnu í friði."

„Leikmennirnir eru hérna því þeir elska ísland og elska að spila fyrir Ísland. Ég veit hvað það er að standa á laugardalsvelli og heyra þjóðsönginn. Ástríðan fyrir fótbolta er hæsta level af ástríðu að fá að spila fyrir Ísland. Þeir eru hér til að gera það og eru það sterkir a þeir vilja gera það þrátt fyrir allt. Það er auðveldast að labba í burtu núna. Þei eru ekki 100% núna og ég ætla ekki að biðja um það en bið bara um að þeir sýni þessa ástríðu á fimmtudaginn."


Stjórn KSÍ sem nú hefur tilkynnt að hún muni fara frá tók þá ákvörðun um helgin að víkja Kolbeini Sigþórssyni úr liðinu svo Arnar þurfti að kalla annan mann inn. Hann var spurður hvað honum finnist um ákvörðun stjórnar og að hún skipti sér af liðsvalinu.

„Ég vil ekki tjá mig um ákvörðun stjórnar, það er erfitt að finna réttu orðin. Ég hef ekki hugsað að ganga til hliðar eða hætta því það sem ég er að gera núna er eitthvað sem ég gæti ekki verið stoltari af. Ég get ekki gengið burtu frá 18-19 ára drengjum sem eru að spila fyrsta landsleik og með sitt fyrsta verkefni."

„Þeir eru að lenda í einhverju sem ekkert lið og engir leikmenn hafa lent í í sögu knattspyrnunnar. Ég held að það hafi þrjár stjórnir þurft að víkja í sögu UEFA, Ísland núna og svo vegna stríðs í Bosníu og fjárhagslegrar krísu í Grikklandi. Hvernig á ég að ganga frá því hlutverki þar sem þessir drengir 18 eða 38 ára eru að lifa sinn draum."

„Ég er að lifa minn draum og vil ná árangri sem landsliðsþjálfari, er það erfitt? Já, eru forsendurnar aðrar en í desember þegar ég tók við? Já, vegna þess að ég þegar ég tók við í desember hafði ég þann stóra draum að ná inn á Katar í næsta ári. Er það orðið erfiðara? Já, en getum við unnið leikinn á fimmtudaginn? Já við getum það og verðum að gera það saman. Það er ómögulegt fyrir mig eða leikmennina sem eru saklausir og starfsfólkið að standa undir þessum málefnum. Þetta eru samfélagsleg málefni og mjög erfið. Við erum hérna fyrir Ísland og ég hef ekki hugsað um að hætta."


Hann var svo aftur spyrja hvort hann myndi sætta sig við að fá samþykki fyrir landsliðsvalinu hjá stjórn KSÍ og svaraði.

„Það mun ég aldrei samþykkja sem þjálfari. Þegar við erum búin að vinna úr þessum málum, knattspyrnuhreyfingin þarf tíma til þess, en ég get ekki sem þjálfari þurft að senda pósta eða hringja og spyrja hvort ég megi velja ákveðna leikmenn. Það segir sig alveg sjálft, það getur enginn þjálfari unnið úr því. En sem samband þurfum við tíma til að vinna úr þessum málum. Það væri ósanngjarnt af mér að ætlast til að búið væri að vinna úr öllu. Við erum í stærsta stormi sem knattspyrnusamband eða knattspyrnuþjóð hefur lent í og við verðum að taka hænuskref og vinna úr þessum skafli."
Athugasemdir
banner
banner