„Ég er gríðarlega sáttur við úrslitin, þetta var erfiður leikur fyrir okkur. Ég verð að viðurkenna það að ég hef aldrei stýrt liði hérna áður, frábær umgjörð og völlur hjá Aftureldingu. Mjög gaman að koma hérna og stýra liði. Mér fannst við vera frábærir fyrsta hálftímann. Svo misstum við einbeitinguna og fáum á okkur víti. Seinni hálfleikurinn var allt í lagi en þeir tóku bara yfir leikinn, þetta var alltof auðvelt fyrir þá. Afturelding hérna á heimavelli er mjög gott lið.“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir 2-1 sigur á Aftureldingu í dag.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 2 FH
Sigurmarkið hans Sigurðar var mjög áhugavert en Mosfellingar vildu fá aukaspyrnu á Sigurð í markinu.
„Ég er bara búinn að sjá þetta einu sinni. Þar sem ég stóð á hliðarlínunni var þetta löglegt mark. Það er ekkert sem stendur í reglunum að menn mega ekki stökkva upp með markmönnum þó það séu margir sem halda það. Þetta er það sama og í seinasta leik við ÍBV þegar margir voru að tala um einhverjar aukaspyrnur og uppbótartíma en svo komst í ljós að þetta var allt rétt hjá dómaranum. Ég held að þetta hafi líka verið þannig í dag.“
FH hefur ekki verið að spila vel á gervigrasi seinustu ár en þeir hafa unnið seinustu tvo gervigrasleikina sína gegn Aftureldingu og Breiðablik.
„Eins og hefur komið fram höfum við ekkert verið að gera mjög góða hluti á gervigrasi en erum núna búnir að vinna á gervigrasi tvo leiki í röð. Við höfum tekið miklum framförum. Frá því í haust höfum við verið að búa til nýtt lið og margir ungir leikmenn fengið sénsinn og staðið sig vel.“
Heimir heldur áfram að tala um breytt lið og tekur dæmi.
„Haustið 2023 var FH að vinna Blika tvo leiki í röð, 22. umferð og í 1. umferð í úrslitaleik á útivelli, það eru bara 3 leikmenn eftir af því liði. Þess vegna var tekinn ákvörðun í haust að spila á ungum leikmönnum og byggja upp nýtt lið. Það hefur gengið vel. Auðvitað var byrjinin ekki góð en við höfum verið að eflast þegar líður á mótið.“
Viðtalið við Heimi má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan
Athugasemdir