Lið Framara tók á móti toppliði Vals á Lambhagavellinum í kvöld. Leikar enduðu með 2-1 sigri Fram eftir vítaspyrnu frá Simon Tibbling á lokamínútum leiksins. Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, fannst sitt lið eiga meira skilið úr þessum leik.
„Já, mér fannst þetta vera ósanngjörn niðurstaða. Miðað við framlag minna leikmanna og hvernig leikurinn spilaðist, fannst mér ósanngjarnt að fara úr þessum leik með 0 stig."
Túfa var þó heilt yfir nokkuð sáttur með frammistöðu sinna manna í leiknum í kvöld.
„Svona beint eftir leik fannst mér fyrri hálfleikur spilast eins og við vildum að hann myndi spilast og við vorum með góða stjórn á leiknum og með góðri pressu, neyddum við þá svolítið í að fara meiri í langa bolta. Við skorum mark og vorum nálægt því að skora annað mark."
Hann var þó allt annað en sáttur með frammistöðu dómara leiksins, Gunnar Odd Hafliðason og fannst halla verulega á sína menn.
„Já, ég var ósáttur þegar svona mörg atriði falla ekkert með okkur og langflest röng. Þegar það hefur áhrif á úrslit leiksins, þá ertu alltaf meira ósáttur. Ég kíkti hérna aftur á Spiideo-vélarnar sérstaklega rangstaðan hjá Tryggva, þegar hann sleppur í gegn í stöðunni 1-0. Bara engan veginn rangstaða, ekki nálægt því. Mjög svekkjandi að þetta hafi áhrif á úrslit leiksins."
Viðtalið má finna í spilaranum hér að ofan.